Breska Golden Globe og SAG verðlaunaleikkonan Claire Foy, 33 ára, sem leikur Elísabetu Englandsdrottningu í Netflix þáttaröðinni The Crown, hefur verið ráðin í hlutverk sjálfrar Lisbeth Salendar, í myndinni The Girl in the Spider Web. Foy verður þar með þriðja leikkonan til að túlka þennan félagsfælna hakkara úr Milleninum þríleik sænska rithöfundarins Stieg Larsson.
Fede Alvarez, leikstjóri Don´t Breathe og Evil Dead, leikstýrir myndinni, en Sony framleiðir.
Skáldsögur Larsson heitins eru The Girl with the Dragon Tattoo ( Karlar sem hata konur ), The Girl Who Played with Fire ( Stúlkan sem lék sér að eldinum ) og The girl Who Kicked the Hornet´s Nest ( Loftkastalinn sem hrundi ).
Skáldsögunum voru fyrst gerð skil af leikstjóranum Niels Arden Oplev með Noomi Rapace í hlutverki Salander, og Michael Nyqvist heitinn lék blaðamanninn Blomkvist. Breski leikstjórinn David Fincher endurgerði Karlar sem hata konur árið 2011 með Rooney Mara og Daniel Craig í helstu hlutverkum, en kvikmyndin gekk ekki nógu vel í bíó til að menn treystu sér til að gera næstu tvær myndir í þríleiknum.
The Girl in the Spider´s Web er samkvæmt Yahoo! Movies ekki beint framhald af mynd Fincer, en á að vera fersk nálgun á efnið, unnin upp úr bók David Lagercrantz sem kom á eftir þríleik Larsson, og var skrifuð með samþykki dánarbús Larsson.
„Ég gæti ekki verið ánægðari með Foy í hlutverkinu. Claire er ótrúlega hæfileikarík, og mun koma með nýja og spennandi orku inn í hlutverk Lisbeth,“ segir Alvarez í tilkynningu.
Næst sjáum við Foy í mynd Steven Soderberg, Unsane, og mynd Andy Serkis, Breathe. Þá mun hún leika í næstu mynd La La Land Óskarsverðlaunaleikstjórans Damien Chazelle, First Man.
Áætlað er að frumsýna The Girl in the Spider’s Web’ 19. október 2018.