Framleiðendurnir hjá EuroCorp hafa staðfest að seinni hluta næsta árs muni hefjast tökur á sjónvarpsþáttum byggðum á Transporter hasarmyndunum. Gerðar hafa verið þrjár Transporter myndir, sem allar skarta Jason Statham í aðalhlutverki, og fjalla þær um sérstaklega flinkan bílstjóra sem tekur að sér vafasöm störf. Oftar en ekki lendir hann í hremmingum og þarf að beita ýmsum brögðum til að lifa þær af.
Í yfirlýsingunni frá EuroCorp segjast þeir ekki geta sagt hvaða sjónvarpsstöð vestanhafs muni sýna þættina en fullvissa um að það sé ein af stóru stöðvunum. Í sömu tilkynningu minntust þeir á að fleiri sjónvarpsþættir væru í bígerð hjá þeim, þar á meðal möguleg sería byggð á hasarmyndinni Taken.
– Bjarki Dagur