Gamli Miami Vice töffarinn og kvikmyndaleikarinn Don Johnson hefur ekki verið mikið í sviðsljósinu síðustu ár. Nú segir frá því í fréttum Reuters að leikarinn hafi unnið mál gegn framleiðendum lögguþáttanna Nash Bridges, en hann lék í þáttunum á móti Cheech Martin. Þættirnir voru sýndir í sex ár í röð á CBS fram til ársins 2001.
Johnson sem nú er 60 ára gamall, fór í mál við framleiðslufyrirtækið Rysher Entertainment LLC þar sem hann taldi að hann hefði ekki fengið sinn hluta af ágóða af þáttunum, þar sem hann var helmingseigandi höfundarréttar að þáttunum.
Rysher sagði á móti að þættirnir, sem enn eru sýndir í endursýningum í 43 löndum um allan heim, væru enn reknir með halla, og Johnson hefði nú þegar þénað um 40 milljónir Bandaríkjadala í þóknanir bæði fyrir leik sinn og fyrir þátt sinn sem framleiðandi við þættina.
Dómari dæmdi að lokum Johnson í hag og sagði að hann ætti rétt á 23,2 milljónum dala ( rúmlega 2,7 milljarðar króna ) vegna hagnaðar auk vaxta allt til ársins 1998, alls 28 milljónir dala ( um 3,3 milljarðar króna ).
„Ég er himinlifandi. Þetta er vel við hæfi. Ég hef beðið lengi eftir þessu,“ sagði Johnson fyrir utan dómshúsið í gær.
Leikarinn fór upphaflega fram á 105 milljónir dala í bætur, en dómarinn dró frá greiðslur vegna framleiðslu, dreifingar og fleiri kostnaðarliði.

