Sylvester Stallone segir að allir leikararnir í spennumyndinni Expandables, sem kvikmyndir.is forsýnir á laugardaginn í Laugarásbíó, séu grjótharðir naglar sem kalla ekki allt ömmu sína. Tattúin, örin, slagsmálin og vöðvarnir eru allt alvöru „Þetta eru allt naglar, í alvörunni, ekki bara á hvíta tjaldinu. Maður myndi hugsa sig tvisvar um ef maður mætti þeim á götunni,“ sagði Stallone á blaðmannafundi þar sem hann var að kynna myndina á Comic-con.
Í myndinni, sem Stallone leikstýrir, skrifar handrit og leikur aðalhlutverkið, fer hann með hóp harðsvíraðra málaliða til ónefnds lands í Suður Ameríku til að velta einræðisherra af stóli, en ekki fer allt eins og áætlað var.
Í myndinni leika Jason Statham, Jet Li, Dolph Lundgren, Mickey Rourke, Terry Crews, fyrrum fjölbragðaglímukappinn Steve Austin og slagsmálahetjan [Ultimate Fighting champ ] Randy Couture, auk þess sem þeim Bruce Willis og Arnold Schwarzenegger bregður fyrir í myndinni. „Þessir kallar geta kramið þig eins og saltkringlu og hlaupið í gegnum veggi,“ bætir Stallone við.
Sjálfur gekk hann ekki heill frá myndinni, en hann braut hálsinn og reif vöðva í öxlinni í öllum hamagangnum. „Ég á eftir að fara í tvo uppskurði útaf öxlinni.“
Í frétt á yahoo segir að Stallone hafi upphaflega verið með útpældara og „gáfulegra“ handrit, en ákvað svo að henda helmingnum af því í ruslið og ákvað að einbeita sér að hasarnum. Hann segist hafa viljað koma aftur með sígild bardagaatriði með harðhausum, og alvöru slagsmálum, sem voru vinsæl áður en tölvubrellurnar tóku öll völd í Hollywood. Spurður að því hverjir voru mestu slagsmálahundarnir á settinu sagði Stallone: „það voru allir hræddastir við Couture, hann er hrikalegur.“
Stallone gefur hvergi eftir í myndinni þrátt fyrir að vera orðinn 64 ára, en allir aðalleikararnir eru yfir fertugt. ( Crews er sá yngsti, 42 ára).
Leyfum Dolph Lundgren að eiga síðasta orðið: „Þetta eru ekki einhverjir stráklingar sem eru að reyna að vera töffarar, þetta eru alvöru töffarar.“
Þar hafið þið það! Nú er bara að drífa sig að sjá hasarinn.

