Í lok kynningar Marvel Studios á Thor og Captain America í gærkvöld á Comic-Con í San Diego var sannkallaðri sprengju varpað á áhorfendur þegar ljósin voru skyndilega slökkt og sýndur var stuttur tíser fyrir The Avengers, sem hefur lengi verið í undirbúningi.
Að því loknu skoppaði Samuel L. Jackson upp á svið og kynnti leikhópinn sem skipar helstu hlutverk, en þar kom ýmislegt á óvart…
Fyrst kynnti hann Clark Gregg, sem endurtekur hlutverk sitt úr Iron Man-myndunum og Thor sem S.H.I.E.L.D.-fulltrúinn Colson, svo Scarlett Johansson sem mun leika Black Widow að nýju, Chris Hemsworth, sem leikur sjálfan þrumuguðinn í Thor, og Chris Evans, sem leikur Captain America.
Því næst kynnti hann á svið Robert Downey Jr. (sem mun að sjálfsögðu leika Tony Stark/Iron Man), sem tók við stjórninni og kynnti tvö ný andlit í Marvel-heiminn. Fyrst fékk hann Jeremy Renner á sviðið, en hann mun leika Hawkeye, og því næst sagði hann eftirfarandi setningu: „Ég styð þessa næstu tilkynningu, því nú mun hann endurtaka hlutverk sitt sem Bruce Banner“ …og kallaði svo nafn Marks Ruffalo, en þeir sem þekkja vel til vita væntanlega að hann hefur aldrei leikið Bruce/Hulk, heldur mun hann taka við af Edward Norton, sem lék hann síðast. Þetta er sannarlega áhugavert val, en gæti vel gengið upp.
Að lokum kynnti hann leikstjórann Joss Whedon á svið sem sagði að lokum, við mikil fagnaðarlæti: „Ég er mjög óöruggur með þetta, ég mun klúðra þessu algerlega.“
Hvað finnst ykkur um þennan leikhóp?
-Erlingur Grétar Einarsson

