Framkvæmdi sín eigin stönt – Angelina Jolie á Comic-Con

Salt þarf líklega ekki að kynna fyrir lesendum kvikmynda.is. Til að kveikja í aðdáendum sátu leikstjóri myndarinnar, Phillip Noyce, framleiðandinn Lorenzo di Bonaventura, leikararnir Liev Schreiber og Angelina Jolie fyrir svörum. Ánægja áhorfenda yfir komu Jolie leyndi sér ekki. Spurð hvers vegna hún ákvað að slá til sagðist hún hafa hrifist af handritinu. Hún sé þekkt fyrir að gera mikið af hasarmyndum, en flestar þeirra gerist í einhverslags fantasíuheimi, þar sem kúlur fá á sig sveigju eða hetjan skýtur óvinininn af baki einhvers dýrs sem er ekki til í raun og veru. Það sem hafi heillað hana við Salt væri að hún gerðist í raunveruleikanum og kallaði þar af leiðandi á grófari og illskeittari hasar. „Maður kemst upp með meira þegar maður gerir fantasíur. Það er erfiðara að halda í trúverðugleikann þegar hlutir eiga að gerast í raun og veru.“ Þá sagðist hún hafa haft ánægju af því að vinna að nýju með Noyce, en þau unnu saman að Bone Collector. „Við höfum bæði breyst og fullorðnast síðan þá, allavega ég.“ Noyce bætti við að Angelina byggi yfir ótrúlegum leikhæfileikum og hreyfigetu, sem færði hasarinn upp á annað stig. „Hún fær þig til að trúa á hann. Hún er einn af bestu núlifandi leikurum í Bandaríkjunum. Hún vildi gera allt sjálf, það var enginn áhættuleikari, ekkert tölvuteiknað.“

Spurð hvort hún hefði notað „The Method“ við gerð myndarinnar svaraði Jolie: „Ég gerði það. Ég geri það yfirleitt. Ég nýti mér hluti sem hreyfa við mér og rífa upp sár.“ Og talandi um sár: Jolie komst ekki alveg klakklaust í gegnum áhættuatriðin: „Ég þurfti náttúrulega að meiða mig á því einfaldasta. Ég átti að rúlla mér út um hurð en lenti á skrifborði. Ég splundraði á mér hausnum, ekki hauskúpunni, bara húðinni hérna á enninu. Ég er með smá ör. Svo hélt ég að ég hefði skemmt í mér heyrnina, ég fattaði ekki að ég var ennþá með eyrnatappana eftir byssubardaga.“ Spurð út í hvaða vopn Salt bæri svarði hún: „Öll! Það er voða fátt sem við notuðum ekki, frá venjulegum skammbyssum til slökkvutækis! Á endanum vorum við hrifnust af bardögum mann á mann.“ En fyrir þá bardaga fékk hún mikla þjálfun.

Hún neitaði að gefa mikið uppi um persónu sína, til að eyðileggja ekki myndina fyrir fólki. „Hún er pínu skemmd, óvenjuleg týpa. Það er eitthvað pínu skrítið við hana og ætli það sé ekki eitthvað pínu skrítið við mig líka. Við pössum ágætlega saman.“ Hún gaf þó upp að hlutir úr barnæsku Salt hefðu mikil áhrif á persónuna og það hvar hennar mörk liggja, hvenær hún ákveður að láta slag standa og hvenær hún ákveður að nóg sé komið. „Við tökum öll ákvarðanir um líf okkar. Ég skil afhverju hún tekur þær sem hún tekur og ég virði þær.“

Á ferlinu kynntust leikararnir fyrrverandi CIA fulltrúum og fengu að læra af þeim. Liev Schreiber segir það hafa heillað sig mest við gerð myndarinnar. „Ég vildi vita hvað drífur þetta fólk áfram. Það er ekki peninganna vegna. Þau búa yfir einhverri föðurlandsást sem ég næ ekki alveg upp í. Þau eru drifin áfram af sannri ást á landi sínu og þjóð.“ „Mér fannst mjög áhugavert að heyra hvernig þau lifa lífinu, án þess að geta deilt því með öðrum. Þau lifa mjög einmanalegu lífi,“ bætti Jolie við.

Liev viðurkenndi að hann væri ekki alveg jafn til í tuskið og Angelina. „Ég framkvæmdi engin af mínum hasaratriðum sjálfur. Hvernig ákveð ég hvort ég eigi að gera það eða ekki? Mun ég reka hausinn í? Verður löppin á mér í fötu af ís það sem eftir er dags? Mun eitthvað fljúga í áttina að mér? Munu fötin mín rifna? Það er margt sem spilar inn í þá ákvörðun.“

Salt var svo frumsýnd í kvikmyndahúsum um miðnæturbil hér vestanhafs.

-Kolbrún Björt Sigfúsdóttir