Tong Gang býst við 1,5 milljarði í kínverska kassann

Bíómenningin í Kína hefur styrkst svo um munar á þessu ári, en tekjur af bíósýningum jukust um 86% á fyrri helmingi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Tekjurnar numu alls 714 milljónum Bandaríkjadala á tímabilinu en ástæðuna fyrir þessari tekjuaukningu má að stærstum hluta rekja til hinnar geysivinsælu þrívíddarmyndar Avatar, auk annarra vinsælla Hollywood mynda. Avatar er aðsóknarmesta bíómynd allra tíma með 2,7 milljarða Bandaríkjadala í aðgangseyri um heim allan.

Búist er við að 1,5 milljarðar Bandaríkjadala muni skila sér í kínverska bíókassann á þessu ári, að sögn yfirmanns kvikmyndamála í Kína, Tong Gang í samtali við Xinhua fréttastofuna.

Tong sagði að Kínverjar hefðu sjálfir gert 288 myndir á fyrri helmingi 2010 og áætlað er að 500 myndir verði framleiddar þar í landi í allt á þessu ári. Það myndi þýða að Kína sé orðið þriðja mesta kvikmyndaland í heimi á eftir Indlandi og Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir margar kínverskar myndir þá eru það Hollywood myndirnar sem mestra vinsælda njóta. Fimm vinsælustu myndirnar á tímabilinu voru Avatar ( 204 m.$ ), Ip Man 2( 34 m.$ ), Alice in Wonderland ( 33 m.% ), Iron Man 2 ( 26 m.$ ) og Clash of The Titans ( 25,8m.$ ) . Eina myndin þarna sem ekki er frá Hollywood er Ip Man 2 sem er mynd um kung fu meistarann Bruce Lee með Donnie Yen í aðalhlutverkinu.