Eins og sagt hefur verið frá hér á kvikmyndir.is þá er undirbúningur undir ofurhetjukvikmyndina Captain America í fullum gangi. Hönnun á búningnum stendur nú sem hæst og aðalleikarinn, Chris Evans, ræddi aðeins um búninginn við kvikmyndatímaritið Empire online á dögunum.
„Miðað við það að búningurinn er rauður, hvítur og blár, og hann er þröngur, og líklega dálítið flassí og áberandi, og í ljósi þess að myndin á að gerast á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar, þá hefur þeim tekist ansi vel upp að gera búninginn svalan,“ sagði Evans. „Ég held að allir sem sjái búninginn muni segja að hann sé flottur. Ég held þeir hafi náð honum góðum. Þeir klikkuðu algjörlega á leikaravalinu, en búningurinn er frábær!“ bætti Evans við í gríni.
„Í Fantastic Four gat maður hreyft sig vel í búningnum,“ sagði Evans, en hann lék Eldmanninn í þeirri mynd. „Þessi búningur er aðeins óþjálli. Hann andar ekki eins og Fantastic Four búningurinn gerði, en svona á hann að vera. Búningar frá þessum tíma, í kringum seinni heimsstyrjöldina, eru frekar klunnalegir, og það gefur honum bara smá karakter.“
Evans tjáir sig líka um hinn fræga skjöld ofurhetjunnar: „Við höfum prófað fullt af skjöldum. Síðast þegar ég var í London þá voru þeir með sex skildi og ég þurfti að prófa þá alla og sjá hver mér fannst bestur. Skjöldurinn er frekar þungur, þannig að ég get nú ekki kastað honum langt, en vonandi er einhver vara skjöldur sem er léttari sem ég get kastað,“ segir Evans, en eins og menn þekkja þá notar Captain America skjöldinn sem vopn og grýtir honum í óvini sína.
Myndin, Captain America: The First Avenger, er væntanleg í bíó 22. júlí, 2011.

