Tvær nýjar bíómyndaumfjallanir eru komnar inn á síðuna. Tómas Valgeirsson, aðalgagnrýnandi kvikmyndir.is, talar um dansmyndina Street Dance 3D og Sæunn, sem er ein af öflugustu gagnrýnendum síðunnar af okkar notendum, skrifar um The Boy in The Striped Pajamas.
Í stuttu máli þá segir Tommi að Street Dance sé mikil klisjusúpa, hann gefur ekki mikið fyrir þrívíddina í myndinni, en dansatriðin eru fyrsta flokks: „Það er slatti af öflugum dansatriðum til staðar og nokkur þeirra gera mann gjörsamlega orðlausan. Afgangurinn er hins vegar svo slæmur að maður gapir næstum því jafn mikið yfir honum og flottu atriðunum,“ segir Tómas.
Sæunn aftur á móti er hrifin af „stráknum í röndóttu náttfötunum“ og gefur henni einar 8 stjörnur: „Virkilega góð mynd sem að þeir sem hafa áhuga á síðari heimsstyrjöldinni ættu að sjá og þeir sem eru komnir með nóg á að sjá allan hryllingin og hasarinn í kringum þannig myndir.“
Við bendum notendum á að allir geta skrifað gagnrýni um bíómyndir á kvikmyndir.is og hvetjum við sem flesta til að segja sína skoðun á þeim myndum sem þeir sjá. Þeir sem ekki nenna að skrifa langt mál, geta alltaf skrifað nokkur orð á spjallsvæði viðkomandi myndar.

