Þegar áhorfendur flykkjast í bíó að sjá nýja bíómynd og peningarnir streyma í kassann, er stutt í að framleiðendur vilji meira og fari að huga að framhaldi viðkomandi bíómyndar. Þetta er strax farið að gerast með karatestrákinn, eða endurgerð myndarinnar The Karate Kid sem nú situr á toppi bandaríska aðsóknarlistans, með þeim Jaden Smith og Jackie Chan í aðalhlutverkum.
Í samtali við MTV sjónvarpsstöðina sagði leikstjórinn Harald Zwart að fólkið á bakvið myndina væri þegar byrjað að kasta á milli sín hugmyndum. „Við höfum rætt það af og til,“ sagði hann. „Málið er að þegar maður horfir á Jackie og Jaden, þá eru þeir mjög gott dúó á skjánumn. Ég fylgdist með þeim, bæði fyrir framan myndavélarnar og þegar þeir voru í pásu, og samband þeirra er mjög gott. Þeir fíflast og leika sér, og það er mjög góð dýnamík á milli þeirra. Manni finnst gaman að horfa á þá.“
Þrátt fyrir þessar þreifingar, þá má telja það ólíklegt að mynd númer tvö muni nota sömu sögu og upphaflega framhaldið, Karate Kid Part ll, miðað við orð Zwarts. „Persónulega held ég að myndin okkar sé það vel heppnuð, og standi svo vel í lappirnar sjálf, að það væri gaman að sjá hvað við gætum gert án þess að vera bundin af gömlu myndunum.“

