Frjálshyggjubók kvikmynduð

Frjálshyggjumenn ættu að kætast núna, því tökur eru hafnar á mynd eftir bókinni Atlas Shrugged eftir Ayan Rand, einn helsta spámann frjálshyggjunnar svokölluðu, sem mikið hefur verið í umræðunni hér á landi síðustu ár.

Að sögn kvikmyndablaðsins Variety þá munu tökur á fyrri hlutanum fara fram næstu fimm vikurnar. Myndin verður gerð í tveimur hlutum, enda bókin mikill doðrantur. Áætlað er að taka annan hlutann þegar fyrri hlutinn er tilbúinn.

Atlas Shrugged var gefin út árið 1957 og gerist í niðurníddum Bandaríkjum, samfélagið hefur hrunið og yfirvöld ná sífellt meiri yfirráðum yfir iðnaðarfyrirtækjunum.

Leikstjóri er Paul Johansson og handrit skrifar Patrick O´Toole. John Aglialoro og Harmon Kaslow framleiða.

Johansson, úr One Tree Hilll, leikur aðalsögupersónuna Galt, en yfirmann lestarfyrirtækisins, Dagny Taggart, leikur Taylor Schilling, úr Mercy, og hlutverk Henry Reardon leikur Grant Bowler, úr Ugly Betty.

Þá leika einnig í myndinni Edi Gathegi, Jsu Garcia, Rebecca Wisocky, Ethan Cohn, Patrick Fischer, Neill Barry, Christina Pickles og Nikki Klecha.