Rush sjóræningi á elleftu stundu

Pirates of the Carribbean – On Stranger Tides, sem verður fjórða myndin í seríunni um sjóræningjana dauðlegu og ódauðlegu, er að sigla úr höfn, og nú hefur Disney fyrirtækið tilkynnt að stórleikarinn úr fyrri myndunum, Geoffrey Rush, hafi ákveðið að vera með í myndinni og leika sem fyrr hlutverk skipstjórans Barbosa.

Kvikmyndasíðan Joblo segir frá þessu og bætir við að hvorki Keira Knightley né Orlando Bloom muni snúa aftur í fjórðu myndinni, en þau léku lykilhlutverk í þeim þremur fyrri ásamt Rush og Johnny Depp. Rush verður þar með einn af þremur leikurum sem munu koma fram í öllum fjórum myndunum, en hinir eru Johnny Depp og Kevin McNally ( sem leikur Gibbs).

Það er ánægjulegt að fá Rush um borð og mikilvægt fyrir framhald sögunnar.

Tökur hefjast í lok þessa mánaðar, þannig að það má segja að Rush sé með seinni skipunum að ráða sig í áhöfnina.

Rush er mættur aftur.