70 dollara mynd sló í gegn á Cannes

Nú þegar umstangið í kringum nýafstaðna kvikmyndahátíð í Cannes er lokið og umræður um hápunkta og sigurvegara hátíðarinnar fer að aukast þá er athyglisvert að skoða að færri virðast tala myndir eins og Inglourious Basterds eða Up, eða þá leikara eins og Brad Pitt eða Penélope Cruz.

Mikið er rætt um bresku myndina Colin sem var gerð fyrir aðeins 70 dollara (45 pund) af kvikmyndagerðarmanninum Marc Price. Price lá í þynnkunni einn morguninn og velti því fyrir sér hvernig uppvakningamynd myndi líta út ef hún væri séð frá augum uppvakningsins. Price hóf þá leit að leikurum á samskiptavefjunum MySpace og Facebook og tókst að sannfæra um 100 manns til að leika í myndinni fyrir engan pening. Eins og venjan er í uppvakningamyndum var mikið lagt upp úr förðun, en förðunarfræðingar störfuðu einnig frítt, og tókst Price að sannfæra förðunarmeistara úr myndinni X-Men: The Last Stand til að hjálpa sér.

,,Mér var sagt að sýningarnar á Cannes gætu verið ansi erfiðar, fólk horfir kannski í 10 mínútur og ef því líkar ekki það sem það sér þá gengur það út. Mig langaði ekki að sjá hvernig Colin myndi ganga þannig að ég hékk á bar á meðan. Mér til mikillar furðu þá vakti myndin mikla lukku.“ sagði Price í viðtali á Cannes, sem hefur snúið til baka í starf sitt eftir hátíðina sem símastarfsmaður fyrir leigubílafyrirtæki. Það tók hann um tvö ár að klára myndina, en öll tæknivinnsla í kringum hana var í hans höndum – myndin var tekin upp á 10 ára gamla myndbandsupptökuvél.

Colin hefur hlotið stórgóða dóma og eins og staðan er í dag er mikill áhugi fyrir dreifingu á myndinni í Japan og Bandaríkjunum. Price vonast eftir því að safna nægu fjármagni, um 100.000 dollurum fyrir næstu mynd sína, Thunderchild, en hún ku vera stríðs/hryllingsmynd og gerist í borð í sprengjuflugvél í fyrri heimsstyrjöldinni.

Þess má til gamans geta að 70 dollararnir fóru í kaup á kúbeini, nokkra pakka af myndbandsspólum til upptöku og te og kaffi fyrir leikara og starfsfólk.

Trailer myndarinnar má sjá hér fyrir neðan: