24 mynd enn í burðarliðnum

Lengi hefur staðið til að gera kvikmynd eftir hinum geysivinsælu spennuþáttum 24, þar sem Kiefer Sutherland leikur eina frægustu og svölustu persónu síðari ára, Jack Bauer. Þrátt fyrir brennandi áhuga allra sem vinna að þáttunum hefur verið erfitt að koma framleiðslunni í gangi en í nýlegu viðtali lét Sutherland hafa eftir séð að myndin væri loks að hefja framleiðslu.

„Það er nokkuð snemmt til að vera að tala um það, en nokkrir ótrúlegir kvikmyndagerðarmenn hafa gengið til liðs við okkur. Við erum mjög spennt. Þetta verður vægast sagt mjög slæmur dagur sem Jack Bauer mun eiga.“

24, sem hefur eins og áður segir notið gríðarlegra vinsælda um allan heim, fjallar um Jack Bauer sem lætur ekkert stöðva sig í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum. Þættirnir voru byggðir upp á þann hátt að hver sería var einn dagur í lífi fólksins í þáttunum, og hver þáttur einn klukkutími í þeim degi. Hinn 44 ára gamli Sutherland bætti við, „Myndin verður tveggja klukkutíma útgáfa af þáttunum. Það gefur handritshöfundunum okkar mikið frelsi, því nú getum við ferðast á milli staða. Jack Bauer gæti aldrei flogið á milli Bandaríkjanna og Japan í þáttunum því flugið tekur 14 klukkutíma og enginn vill sjá það.“

– Bjarki Dagur