22 ára handrit Apatow í Simpsons

Þáttur um Simpsons-fjölskylduna verður gerður eftir handriti leikstjórans Judds Apatow, 22 árum eftir að hann skrifaði það.

Sem ungur og upprennandi grínisti sendi Apatow inn handrit þegar upptökur á fyrstu þáttaröðinni voru að hefjast 1989. Hann fékk aftur á móti ekkert svar.

Apatow náði síðar frægð og frama. Fyrst með sínum eigin sjónvarpsþáttum Freaks and Geeks og Undeclared og síðan sem kvikmyndagerðarmaður með 40 Year Old Virgin, Knocked Up, og fleiri gamanmyndum.