Tölvuleikjaheimurinn stækkar og stækkar með hverju árinu sem líður. Í sumum löndum eru þeir sem þykja hvað bestir í sportinu oft metnir á við fótboltastjörnur. Fólk fyllir heilu íþróttasalina til þessa eins að bera goðin augum og minnir þetta oft á íþróttaviðburði.
Stórfyrirtæki hafa þegar rankað við sér og séð gróða í að styrkja helstu lið í tölvuleikjum og eru þúsundir tölvuleikjaiðkenda á launum allan ársins hring. Þetta hafa fyrirtækin gert útaf því tölvuleikjamót eru oft með yfir hundruði milljóna íslenskra króna í verðlaunafé.
Í nýrri stiklu fyrir heimildarmyndina, Free To Play, fáum við að fylgjast með nokkrum einstaklingum sem spila tölvuleikinn Dota 2. Tölvuleikjaframleiðandinn Valve stendur á bakvið myndina sem segir frá lífi fólks sem hefur fórnað menntun, vinum og jafnvel fjölskyldu sinni til þess að verða meðal þeirra bestu.
Heimildarmyndin verður svo frumsýnd þann 19. mars næstkomandi.