Zack Snyder leikstýrir Superman

Ein mest spennandi frétt síðustu daga og vikna hlýtur að vera sú sem berst nú úr herbúðum Warner Bros.-liða um að búið sé að finna leikstjórann sem á að færa okkur nýja Superman-mynd.

Undanfarna mánuði hefur leit staðið yfir að manni sem gæti tekist á við hið stóra verkefni sem Superman er og hafa Tony Scott, Ben Affleck og Robert Zemeckis allir verið fengnir í viðtal við framleiðendur. Hins vegar er það sjálfur Zack Snyder, leikstjóri Watchmen, 300 og bráðum Sucker Punch, sem verður frumsýnd á næsta ári, sem hefur fengið starfið.

Christopher Nolan er aðalframleiðandi myndarinnar og David Goyer mun skrifa handritið, þannig að það verður engin afsláttur á væntingum fyrir myndina, en Zack hlakkar bara til: „Þetta er ekki komið langt, en ég get sagt ykkur að það sem David og Chris hafa gert nú þegar við söguna hefur gefið mér frábæra innsýn til að nútímavæða hann. Mér hefur alltaf fundist hann vera frekar æðislegur. Ég ætla að klára Sucker Punch og ganga svo beint til verks“, sagði Snyder við vefmiðilinn Deadline, sem var fyrst að segja frá þessu.

Hvað finnst ykkur um þetta? (Ath: Christopher Nolan ætlaði aldrei að leikstýra myndinni, þannig að „Mér finnst að Christopher hefði frekar átt að gera þetta sjálfur“-rökin verða ekki tekin gild. Svo er hann bissí við næstu Batman-mynd) En endilega segið ykkar skoðun.

Trailer fyrir Sucker Punch:

-E.G.E