Wright og Pegg undirbúa nýja gamanmynd


Síðan Hot Fuzz kom út árið 2007 höfum við öll beðið í mikilli eftirvæntingu eftir þriðju og síðustu gamanmyndinni í hinum svokallaða Blood and Ice Cream þríleik, sem samanstendur af Shaun of the Dead, Hot Fuzz og hinni væntanlegu World’s End– nú virðist loksins eitthvað farið að gerast með þá þriðju ef eitthvað er að marka orðróma sem Nick Frost hóf og nýju ljósmyndina sem birtist á twitter-síðu Edgar Wrights:

Þeir sem keyptu DVD-diskana fyrir Shaun of the Dead og Hot Fuzz muna kanski eftir því að meðal aukaefnisins voru myndbönd af þeim Edgar Wright og Simon Pegg að fara yfir hugmyndir þeirra fyrir myndirnar á teiknitöflu og hugaflæðið á bakvið upprunalegu söguþræði, hugmyndir og persónur myndanna á þeim töflum. Og eins og sést á myndinni virðast þeir byrjaðir að taka til hugmyndaflæðið sitt fyrir World’s End- eða að þeir séu bara að fíflast með okkur.

Þeir Wright og Pegg gáfu nýlega út sínar eigin gamanmyndir; Wright leikstýrði Scott Pilgrim Vs. The World og Simon Pegg skrifaði, framleiddi og lék í Paul ásamt félaga sínum Nick Frost og fengu báðar myndir hlýjar viðtökur en hvergi nálægt því lofi sem sameiginlegar gamanmyndir þeirra hafa hlotið. Nú er bara að bíða og sjá hvort þeir eru ennþá jafn skarpir saman og hvernig þeir munu leika sér með hugmyndir að gamanmynd um heimsendir.

Hvernig er ekki hægt að vera spenntur yfir þessu?