Worthington vill fá slöngulokka í næstu Clash of the Titans

Kvikmyndaleikarinn Sam Worthington vonar að framhaldið af Clash of the Titans, muni „leiðrétta mistökin“ sem gerð voru í fyrstu myndinni.

Hinn ástralski Worthington, sem einnig hefur leikið í stórmyndunum Terminator og Avatar, lék Perseus í fyrstu Clash of the Titans. Gagnrýnendur hökkuðu myndina í spað, en áhorfendur voru á öðru máli og flykktust í bíó til að sjá verkið. Ásamt Worthington léku Liam Neeson og Gemma Arterton í myndinni m.a.

Worthington áætlar að taka persónu sína öðrum tökum í framhaldsmyndinni, bæta leik sinn og fá sér nýja klippingu. Í samtali við Total film segir leikarinn: „Myndinni var slátrað af gagnrýnendum, en þénaði þrátt fyrir það hálfan milljarð Bandaríkjadala í miðasölunni. Nú þegar við fáum að gera framhaldsmynd getum við lagfært það sem aflaga fór í þeirri fyrri,“ segir Worthington og bætir við: „Ég vil breyta Perseusi. Til að byrja með vil ég ekki raka allt fjárans hárið af mér. Í þetta sinn ætla ég að vera með slöngulokka.“

Gemma Arterton hefur líka tjáð sig um myndina, og sagt að hún hlakki til að þróa persónu sína Io, og vonar að hún geti átt meiri samskipti við Liam Neeson og Ralph Fiennes.
Hún sagði: „Það er alltaf áhugavert þegar þú hefur gert eitthvað, að koma að því aftur því þá hefurðu annarskonar aðkomu. Þú manst hvernig þetta var í fyrsta skipti, og getur þróað út frá því. Það verður áhugavert. Mér fannst mjög gaman að vinna með leikurunum og vonandi get ég unnið með Ralph og Liam í þessari mynd, því ég fékk ekki tækifæri til þess síðast.“