Christopher McQuarrie hefur samþykkt að skrifa handritið að framhaldsmynd um ofurhetjuna Wolverine, en Hugh Jackman mun snúa helköttaður aftur sem úlfamaðurinn stálslegni. Wolverine hefur krafta til að lækna sjálfan sig af sárum og beinagrindin er búin til úr ofursterkum málmi – adamantium.
Myndin sem framleidd er af 20th Century Fox kvikmyndaverinu, mun gerast snemma á níunda áratug síðustu aldar í Japan og munu Ninja stríðsmenn meðal annars koma við sögu, en Wolverine á eins og fyrri daginn í innri baráttu um það hvort hann eigi að fylgja dýrslegu eðli sínu, eða búa undir aga Ninjanna.
Ákveðið var að fara út í framhaldsmynd eftir velgengni fyrstu myndarinnar X-Men Origins: Wolverine, en tekjur af henni námu næstum 180 milljónum Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og 363 milljónum dala alls í heiminum öllum.
McQuarrie er kunnugur Wolverine. Handritshöfundurinn, sem fékk Óskarinn fyrir The Usual Suspects, skrifaði handritið að X-Men, þó svo að hann hafi ekki viljað hafa nafnt sitt í kreditlistanum þar sem lokaútgáfan af myndinni var meira í takt við handrit David Havter en hans.

