Þrír af helstu hasarmyndanöglum bíómyndasögunnar hafa nú sent frá sér nýjar myndir í byrjun árs 2013. Myndir Arnold Schwarzenegger og Sylvester Stallone, The Last Stand og Bullet to The Head, hlutu ekki náð fyrir augum bíógesta í Bandaríkjunum og ollu vonbrigðum í miðasölunni. Nú er hinsvegar komið að þriðju hasarhetjunni til að reyna sig í miðasölunni; Bruce Willis. Mynd hans A Good Day to Die Hard var frumsýnd í Bandaríkjunum á fimmtudaginn, eins og reyndar hér á landi einnig.
Myndin þénaði 8,3 milljónir Bandaríkjadala á fyrsta sýningardegi sínum samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu sem framleiddi myndina.
Önnur aðsóknarmesta myndin á fimmtudaginn, Valentínusardaginn, var síðan rómantíska dramað Safe Haven með þeim Josh Duhamel og Julianne Hough í aðalhlutverkum.
Í frétt Entertainment Online vefsíðunnar er haft eftir Jeff Bock miðasölugreinanda að Die Hard væri líkleg til að þéna um 30 milljónir dollara yfir alla helgina.
„Það verður alltaf eftirspurn eftir harðhausamyndum,“ segir Alain Burrese, höfundur bókanna Tough Guy Wisdom, sem safnar saman frösum og upplýsingum úr hasarmyndum.
Samkvæmt Marsall Julius, sem skrifaði bókina Action! The Action Movie A-Z segir að vandamálið með nýju myndir þeirra Stallone og Schwarzeneggers sé að myndirnar hafi einfaldlega ekki verið nógu góðar.
Sjáðu stikluna úr A Good Day to Die Hard hér að neðan:
„Það er ekki nóg að drepa fullt af vondum köllum og henda inn nokkrum fyndnum línum,“ sagði Julius við Entertainment Online. „Það dugði í gamla daga, en ekki núna.“
Metsölumynd Schwarzenegger, Terminator 2: Judgement Day, kom út fyrir 22 árum síðan en stærsta mynd Stallone, Rambo: First Blood Part II, kom út fyrir 28 árum síðan. Metsölumynd Willis, sem hefur leikið í fleiri myndum en hinir tveir, og í fjölbreyttari myndum, var The Sixth Sense árið 1999.
Þremenningarnir komu svo allir saman í mynd Sylvester Stallone The Expendables árið 2010, og síðan framhaldsmyndinni The Expendables 2 í fyrrasumar.
Seinni myndin, þó hún hafi gengið betur utan Bandaríkjanna en fyrri myndin, varð ekki jafn vinsæl í Bandaríkjunum og fyrri myndin.
„Þó að þessir menn sú í guðatölu hjá bíónördum á fimmtugsaldrinum, þá eru þeir gamlir og óþekktir fyrir krökkum í dag,“ sagði Julius.
Burrese minnir á að það sé óumflýjanlegt að jafnvel stærstu hasarmyndastjörnurnar, hvort sem það er John Wayne eða aðrir, missi flugið á endanum.“
Miðað við aðsóknartölur fimmtudagsins þá virðist Bruce Willis ekki ætla að lenda í því sama nú um helgina og þeir Stallone og Schwarzenegger lentu í með sínar nýju myndir, en nú verða þeir tveir síðarnefndu bara að vona að næsta mynd þeirra tveggja, The Tomb, sem verður frumsýnd í haust, gangi betur.