Westworld 2 gestgjafar í hefndarhug

Eftir nokkrar kitlur og ljósmyndir úr Westworld 2 síðustu misseri, þá er nú komin stikla í fullri lengd fyrir þennan vinsæla HBO framtíðatrylli sem kemur í sjónvarpið í Bandaríkjunum síðar í þesssum mánuði. Fyrri serían sló í gegn, bæði hér á landi, en hún er sýnd á Stöð 2, og í Bandaríkjunum og víðar.

Eins og sjá má í stiklunni hér fyrir neðan þá eru gestgjafarnir og vélmennin, þau Dolores, sem Evan Rachel Wood leikur, og Maeve, sem Thandie Newton leikur, orðnar uppreisnarmenn, og mennirnir þurfa að gæta að sér í Delos skemmtigarðinu, sem þekktur er undir nafninu Westworld.

Nú eru þær meðvitaðar um eigin ástand, að þær eru ekki mennskar heldur gervigreindarverur, og eru núna tilbúnar að hefna sín og berjast fyrir tilverurétti sínum, sem og að kanna hvernig heimurinn er utan garðsins .

Miðað við það sem sést í stiklunni þá er eins og stokkið sé á milli tímabila, og von er á góðum skammti af fallegri kvikmyndatöku og ofbeldi. Í stiklunni hljómar lagið Heart Shaped Box eftir Nirvana.

Frumsýningardagur þáttanna í Bandaríkjunum er 22. apríl nk.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: