WandaVision sýnishornið slær met

Þetta lúkkar!

Fyrsta sýnishornið fyrir sjónvarpsþættina WandaVision sló áhorfsmet á fyrsta sólahring eftir frumsýningu. Horft var á stikluna rúmlega 50 milljón sinnum á fyrstu 24 tímunum eftir að hún var frumsýnd. Þetta er fordæmalaust fyrir þætti framleidda fyrir streymi en mikill spenningur er fyrir þessa seríu sem kemur úr smiðju stórrisa Disney og Marvel Studios.

Þættirnir verða gefnir út í desember á Disney+ og verða sex talsins. Líkt og nafnið gefur til kynna segja þeir frá hinu góðkunna pari úr MCU-myndunum, Wanda “Scarlet Witch” Maximoff og Vision í túlkun þeirra Elizabeth Olsen og Paul Bettany. Persónurnar hafa sum staðar verið gagnrýndar fyrir að fá ekki meiri skjátíma og fókus í Avengers-seríunni og því verður þetta kærkomið (og skemmtilega súrt) eintak í Marvel-kanónuna. Það er Matt Shakman sem leikstýrir þáttunum og er framleiðslukostnaður talinn vera um 150 milljónir bandaríkjadala.

Hinn svokallaði fjórði fasi MCU-myndanna er sagður hefjast með WandaVision þáttunum. Ættu mörgum að þykja það sérstaklega góðar fréttir þar sem Disney staðfesti á dögunum að Black Widow yrði færð til næsta árs og var upphaflega áætluð í október.

Jólin 2020 verða þá í það minnsta snemmbúin í ár hjá Marvel-aðdáendum og jafnvel fleirum.