Maður var handtekinn á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi eftir að hann skaut af startbyssu, mitt í viðtali í beinni útsendingu sem Óskarsverðlaunaleikarinn Christoph Waltz tók þátt í.
Sjáðu atvikið hér fyrir neðan:
Eftir að maðurinn var handtekinn fundust einnig á honum gervi handsprengja og hnífur.
Atvikið gerðist þegar franska sjónvarpsstöðin Canal+ var að taka viðtal við Waltz og leikarann Daniel Auteuil, en byssumaðurinn skaut tveimur skotum upp í loftið.
„Lífverðirnir stukku yfir girðingar og inn í fólksfjöldann og skelltu honum í jörðina,“ sagði vitni að nafni Arthur Laiguesse við Sky sjónvarpsstöðina.
„Lögreglan kom og sagði öllum að hlaupa af því að maðurinn var með handsprengju í hendinni.“
Í sjónvarpinu sást Waltz og aðrir gestir og starfsfólk, klöngrast frá sviðinu sjávarmegin, þegar rödd sagði: „Það er einhver að skjóta“.
Eftir að búið var að leiða manninn á brott, þá tilkynntu framleiðendur sjónvarpsþáttarins að þátturinn myndi halda áfram í útsendingu.
Waltz, sem hefur unnið tvenn Óskarsverðlaun, fyrir Django Unchained og Inglorious Basterds, er í dómnefnd kvikmyndahátíðarinnar í ár, ásamt Auteuil, Steven Spielberg og Nicole Kidman.
Opnunarmynd hátíðarinnar var The Great Gatsby eftir Baz Luhrman, með þeim Leonardo DiCaprio og Carey Mulligan í aðalhlutverkum.
Aðrar myndir sem keppa munu um Gullpálmann, aðalverðlaun hátíðarinnar, eru meðal annars Inside Llewyn Davis, eftir Coen bræður, og Venus in Fur, eftir Roman Polanski.