Framleiðendur, gagnrýnendur og fleiri í kvikmyndageiranum fengu að sjá brot úr kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty á viðburði kvikmyndahúsaeigenda í Bandaríkjunum í vikunni og má með sanni segja að hún hafi fengið frábærar viðtökur.
„Okkur þykir líklegt að þessi mynd verði á næstu Óskarsverðlaunum.“ segir á síðunni Cinemablend og halda þeir áfram „Við stóðum á öndinni, þetta myndbrot er það besta sem við höfum séð á þessum vikulanga viðburði.“
Gagnrýnendur urðu hissa á því að Walter Mitty væri ekki grínmynd á borð við Zoolander og Tropic Thunder, heldur væri hún dramatísk með gamansömu ívafi á hæsta skala. Einnig var talað um hágæða kvikmyndatöku og frábærar persónur.
The Secret Life of Walter Mitty er leikstýrt af Ben Stiller sem einnig skrifar handritið og leikur aðalhlutverkið. Myndin er endurgerð á samnefndri mynd frá árinu 1947 með Danny Kaye í aðalhlutverkinu.
Walter í túlkun Stiller er uppburðarlítil og hikandi manngerð, sem starfar sem myndstjóri hjá tímariti í New York. Hann lifir lífi sínu í gegnum dagdrauma. Þegar ein af myndunum sem hann er að vinna með týnist, þá þarf hann að fara í alvöru ævintýraferð og kemst að því úr hverju hann er í raun gerður, og hverju hann getur áorkað.