Vissi ekki hvaða Star Wars hlutverk hann hafði fengið

Breski Óskarstilnefndi leikarinn Richard E. Grant hefur upplýst um nokkur smáatriði er snúa að því er hann var ráðinn til að leika hinn undirförula hershöfðingja Pryde, í næstu Stjörnustríðskvikmynd, Star Wars: The Rise of Skywalker.

Grant þungt hugsi í hlutverki hershöfðingjans.

Segir leikarinn að eftir að hann afhenti dularfulla myndbandsupptöku þegar hann var í ráðningarferlinu, sem hann gerði sjálfur, þá vissi hann ekki hvaða hlutverk hann kæmi til með að leika, fyrr en eftir að leikstjórinn JJ Abrams réði hann.

Það var ekki fyrr en í kvöldverðarboði með leikhópnum, sem Grant fékk að vita hvaða persónu hann myndi leika.

„Ég fékk sent atriði úr kvikmyndinni sem ég átti að taka upp heima hjá mér með „hernaðarleyndarmál“ skrifað þvert yfir. Þetta var B-mynda yfirheyrsluatriði úr bíómynd frá fimmta áratug síðustu aldar. Ég tók upp atriðið, sendi það og hugsaði svo ekki meira um það. Svo fékk ég símtal þar sem mér var sagt að leikstjórinn vildi hitta mig í Pinewood kvikmyndaverinu, og sagt að þeir myndu senda bíl eftir mér – og enginn mátti vita það,“ segir Grant í samtali við The Sunday Times Magazine.

Hann kom á skrifstofu Abrams, þar sem var fyrir Daisy Ridley, sem leikur aðahlutverkið í myndinni, Rey.

Talaði á yfirhraða

„JJ Abrams talar á yfirhraða, eins og persóna í Scorsese kvikmynd, og hann spyr mig hvort ég vilji taka að mér hlutverkið eða ekki. Ég sagðist ekki hafa lesið handritið og hann svarar, „Enginn fær handrit“, og svo segir hann mér „Þú átt að leika þennan gaur“ – en talaði svo hratt að það var eiginlega óraunverulegt.

„Ég man ekki eftir að hann hafi sagt mér nafnið á persónunni eða neitt,“ segir Grant. „Hann faðmaði mig bara innilega og sagði, „Þannig að þú tekur þetta að þér?“ Og ég sagði, auðvitað geri ég það, hvað svo sem hlutverkið er. Og þá fékk ég að vita að ég mætti ekki segja neinum frá því.“

Star Wars: The Rise of Skywalker kemur í bíó hér á Íslandi og annars staðar 19. desember nk.