Viðtalið – Ólafur Jóhannesson

Margir bíða eftir 31. mars með mikilli eftirvæntingu, en þá verður nýjasta mynd Ólafs Jóhannessonar, gamanmyndin Kurteist Fólk, frumsýnd í kvikmyndahúsum. Myndin er byggð á handriti eftir Ólaf sjálfan og Hrafnkel Stefánsson, og fjallar um Lárus, óhæfan verkfræðing sem lýgur sig inn í samfélag á Vesturlandi og þykist geta komið sláturhúsi staðarins í gang á ný. Óafvitandi gengur hann inn í litla heimsstyrjöld sem ríkir í einkalífi íbúa og pólitík bæjarfélagsins. Þaulkunnugur hópur íslenskra leikara má finna í myndinni en með hlutverk í henni fara Stefán Karl Stefánsson, Eggert Þorleifsson, Benedikt Erlingsson, Hilmir Snær Guðnason, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir svo nokkur nöfn séu nefnd.

Ólafur Jóhanesson, leikstjóri og handritshöfundur, hefur heldur betur verið duglegur undanfarin ár og orðið eitt af stærstu nöfnum íslenskrar kvikmyndagerðar. Hann braust fram á sjónarsviðið með heimildamyndinni Blindsker og hefur haldið áfram að vekja umtal og athygli með myndum á borð við Africa United, Queen Raquela, Act Normal og Stóra Planinu. Þessar myndir eiga það sameiginlegt að þær voru talsverðan tíma í framleiðslu áður en þær litu dagsins ljós. Ólafur segir það mikilvægt að flýta sér ekki þegar kemur að kvikmyndagerð. „Með reynslu þá fattar maður að hætta að reyna drífa myndirnar út. Mest græðir maður á því að geta skotið verkið, klippt, látið verkið liggja, endurklippa, skjóta meira ef það þarf, láta verkið aftur liggja (t.d. í mánuð eða tvo) og þannig blómstrar það af sjálfu sér. Svo þegar komið er aftur að verkinu þá fattar maður strax hvað er hugsanlega að, hvað þarf að stytta, endurskjóta eða eitthvað slíkt.“ segir Ólafur og bætir við að Kurteist Fólk var rúm 2 ár í framleiðslu, með miklum dvalartíma inn á milli. „Það marg borgar sig að gera þetta svona. Ef maður flýtir sér um of er mikil hætta á að verkið sé ekki í jafnvægi á einn eða annan hátt. Ofan á það er enginn að bíða eftir verkinu. Það helsta sem fær mann til að drífa sig, er ef þú þarft að skila af þér af peningaástæðum, það vinnur yfirleitt gegn verkinu.“

Í Kurteisu Fólki fylgjumst við með verkfræðingnum Lárusi reyna fyrir sér á sviði sem hann hefur ekkert vit á og á stað sem er honum ókunnugur. Ólafur hefur sérhæft sig í persónum sem passa ekki inn þar sem þær eru, líkt og Queen Raquela, Africa United og að ógleymdum Davíð úr Stóra Planinu. „Þetta hefur óvart alltaf verið þema hjá mér. Að sjá óvenjulega einstaklinga í venjulegu ljósi, svo að segja. Þetta á líka við um heimildamyndirnar Africa United og Act Normal. Þetta er greinilega það sem lætur mig tikka að hluta, að sjá það sem kallað er öðruvísi undir venjulegu ljósi. Samt er þetta í raun ekkert annað en enn eitt söguformið, sem á greinilega vel við mig.“ segir Ólafur, en bætir við að þetta sé ekki eina þemað úr fyrri myndum sem skýtur upp hausnum í Kurteisu Fólki. Hann hafi nefnilega aldrei trúað því að lífið væri bara svart eða hvítt, og heillast af svæðinu þar á milli. „Það hefur verið margsagt í ýmsum myndum, og maður sér það í daglegu lífi, að svarthvítt hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Á yfirborðinu er fjallað um hina og þessa hluti, en það er aldrei almennilega hægt að skilgreina neitt, við höfum bara ekki tungumálið í það á þessari plánetu. Slíkt gefur endalausa möguleika á sögum, hvernig aldrei er hægt að ná tökum á neinu í tunguformi.“

Ólafur hefur komið víða við á ferli sínum en gat sér fyrsta nafn sem heimildamyndaleikstjóri. Síðan þá hefur hann snúið sér meira að leiknu efni og ber því að spyrja hvernig hann upplifir þessar tvær gjörólíku tegundir kvikmyndagerðar. „Það sem þessi tvö form eiga sameiginlegt er óvissa. Í heimildamynd veistu ekki hvað gerist og í raun ekki heldur í leikinni mynd. Þetta er stórfurðuleg blanda af heppni, stemmingu, stuði, óheppni og efnafræði sem blandast saman, einhvers konar ágiskunarleikur, maður giskar á hitt og þetta út frá grunntilfinningu í báðum formum.“ segir Ólafur, en bætir við að heimildamyndir séu mikilvægari á ákveðinn hátt. „Því í þeim geturðu speglað líf “alvöru” fólks. En í leiknum er þetta meira plat og er auðveldara að ýmsu leyti. Það sem er mjög ólíkt með þessum formum er fjármagnið, heimildamyndir hafa margfalt minn fjármagn en þær leiknu.“.

Eins og áður kom fram birtist okkur sannkallað landslið íslenskra leikara í Kurteisu Fólki, en Ólafur segir hann og Hrafnkel Stefánsson hafa snemma byrjað að velta fyrir sér hugmyndum að leikurum. „Tvímælalaust er betra að vera með leikara í huga og skrifa svo rulluna, þannig sér maður fyrir sér viðbrögð, háttalag og annað slíkt. Það hjálpar mikið þó að oft endi maður með annan leikara en upphaflega var áætlað. Það er allur gangur á hinu, stundum kemur leikarinn með mjög mikið inn í verkið, stundum ekki.“ segir Ólafur en segir það mikilvægasta sem og skemmtilegasta vera samvinnuna við að skapa.
Það er einmitt þessa samvinna á milli Ólafs og Stefáns Karls sem færir okkur hinn seinheppna Lárus sem þykist geta borið heilt sláturhús á herðum sér. Í myndbroti þar sem skyggnst var bak við tjöldin við gerð myndarinnar sagði leikarinn orkumikli Ólaf hafa verið eins og sitt Rítalín, setið á sér eins og á ofvirkum krakka. Ólafur segir erfitt að skilgreina nákvæmlega hvað fer í samstarfið við leikarahópinn. „Það er allskonar í gangi. Þetta er samvinna. Á endanum snýst þetta alltaf um ákvarðanir. Maður brenndi sig á því í reynsluleysi upphafsáranna að skilja þetta ekki. Ég tek ákvörðun, gef leikaranum hana, svo tekur hann eða hún ákvörðun, svo ég aftur o.s. frv.. Þannig er spilaður einhverskonar móment-to-móment-ping-pong-júdó – og teknar ákvarðanir fram og tilbaka á einhverri nær því ósýnilegri línu. Þetta er eiginlega aftur leikur í ágiskun þar sem er þó mikilvægt að skynja einhversskonar grunn-tilfinningu með leikaranum til að vinna útfrá.

Í fyrstu stóð til að myndin bæri titilinn Laxdæla Lárusar áður en honum var breytt í Kurteist Fólk. Ólafur segist hafa fundist Laxdæla Lárusar fínt vinnuheiti en þegar verkefnið fór að taka á sig mynd ekki viljað traðka á Laxdælu-nafninu. Breytingarnar sem verða á hverju verkefni eru ýmist stórar eða smáar, en oft á tíð þarf að klippa heilu atriðin úr mynd áður en hún lítur dagsins ljós. Aðspurður hvort hann hafi klippt einhver atriði úr Kurteisu Fólki sem hann harmi sérstaklega kinkar Ólafur kolli. „Já. Það er svo merkilegt, þegar atriði eru klippt út úr mynd. Þá ákveður myndin það sjálf. Það gerist þegar maður lætur verkið liggja í mánuð eða tvo þá sést strax hvað hentar ekki sögunni og þannig tekur myndin ákvörðun, það er hinsvegar æfing að læra að hlusta á það.“ segir hann, en bætir þó við: „En á móti kemur, að einhver tæknisnillingur fann upp “DVD Extras” fyrir útklippt efni.“ og brosir.

Það verður ekki frá því horfið að kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi hefur blómstrað undanfarin ár og á Ólafur óneitanlega komið að því. En hvernig er að vera kvikmyndagerðamaður á fróninu um þessar mundir? „Það er eins og önnur störf, brauðstrit, sjálfsefi, vesen. Það er enginn glamúr yfir þessu þó oft sé reynt að rembingskreysta það út í einhverri ímynd.“ útskýrir hann. „Ef maður ætlar að taka upp myndefni, þá er leikstjórinn og leikararnir aðeins örþáttur í framleiðslunni. Það er myndtaka, hljóð, aðstoðarfólk, smink, rafvirkjar, matseld, búningar, leikmynd og ég veit ekki hvað. Þetta er tómt vesen, og mjög illa borgað, en hey hverjum finnst það ekki um starf sitt í nútímasamfélagi, fyrir utan nokkra spaða og spöður í fámennri yfirstétt sem eru að drepa sig yfir leiðindum að þurfa að eyða peningum – samfélagið er sífellt að segja okkur að við eigum að vera þar, rík, elskuð og kannski fræg. Það nægir að anda meðvitað nokkrum sinnum, og viti menn, það vill bara svo til að maður er í kvikmyndagerð sem er ekki hundsmerkilegri en önnur skilgreind eða óskilgreind starfsfyrirbæri. Ehm, já, það er semsagt skemmtilegt vesen að vera í þessum bransa í dag, og hreint ótrúlegt hvað margir þora að vinna í þessu brothætta umhverfi.“

Að lokum er spurt að framtíðarverkefni Ólafs. „Í fullri hreinskilni þá veit ég ekkert hvað tekur við.“ segir leikstjórinn snjalli, en íslenskir kvikmyndaunnendur munu eflaust bíða spenntir eftir hverju sem Ólafur tekur sér fyrir hendur. Leikstjórinn, sem uppfyllti þann draum með Kurteisu Fólki að taka upp mynd á heimaslóðum sínum, segir, aðspurður hvar hann myndi taka upp sína draumamynd: „Mér líður eins og ég hafi a.m.k. gert nokkrar draumamyndir á draumstöðum, þannig líður mér, eins og ég sé búin með nægilega mörg verk á kvikmyndaferlinum. Þannig að í augnablikinu er draumastaðurinn uppfylltur.“

Eins og áður kom fram er Kurteist fólk frumsýnd í kvikmyndahúsum 31. mars næstkomandi og er þá um að gera að skella sér bíó!

– Bjarki Dagur Svanþórsson