Vinsælast á Netflix á Íslandi – Tom Cruise og konungur tígranna

Notkun Íslendinga á streymisveitunni Netflix hefur aukist stöðugt á undanförnum árum (og ekki síður undanfarna daga þegar sóttkví Íslendinga eykst með degi hverjum) og virðist vera nóg af framboði efnis sem hentar hverjum og einum.

Nýverið tók veitan upp á því að birta lista yfir tíu vinsælustu titla í hverju landi, en þar falla kvikmyndir, sjónvarpsþættir, heimildarmyndir og allt tilheyrandi undir sama hatt.

Listinn uppfærist daglega en að svo stöddu samanstendur hann af 10 eftirfarandi titlum sem eru heitastir á Íslandi í dag:

1. Tiger King: Murder, Mayhem and Madness

Heimildarþættirnir sem hafa verið á vörum flestra. sem Hér er sagt frá sérvitringnum Joe Exotic, betur þekktum sem ‘Tiger King’, en hann átti og rak einn stærsta dýragarð fyrir stóra ketti, í USA . Exotic er eins og persóna úr skáldskap og hafa ýmsir viðmælendur í heimildarþáttunum meira en kostulegar sögur að segja af dýragarðsverðinum skrautlega.


2. Ozark

Þriðja sería af þáttunum Ozark er nýlent á Netflix en þar mæta Jason Bateman og Laura Linney aftur til leiks í þessum æsispennandi söguþráð um peningaþvott og eiturlyfjasmygl. 


3. RuPaul’s Drag Race

Dragkeppni RuPaul á sér dyggan aðdáendahóp hér á landi og hafa landsmenn fylgst ólmir með tólftu þáttaröðinni og framvindu hennar ásamt tilheyrandi drama og usla. „Ef þú elskar ekki sjálfan þig, hvernig ætlarðu að fara að því að elska einhvern annan?“ spyr skemmtikrafturinn RuPaul í lok hvers þáttar.


4. Car Masters: Rust To Riches

Það er vanmetin list að gera upp gamlan, ónýtan bíl en hér fáum við að kynnast fyrirtækinu Gotham Garage og starfsseminni þar. Það er eigandinn Mark Towle sem leiðir flinkan hóp fagmanna sem leika listir sínar í fagi sínu. Kjörin bíladella fyrir áhugasama.


5. Unorthodox

Þættirnir Unorthadox eru nýkomnir á Netflix við góðar undirtektir. Hér er fjallað um unga konu sem yfirgefur samfélag strangtrúaðra gyðinga í New York og byrjar nýtt líf í Berlín. En þegar hún er loks farin að geta staðið á eigin fótum fer fortíðin að hafa áhrif á líf hennar. 


6. American Made

Tom Cruise tróð sér á aðsóknarlista vikunnar með kvikmyndinni American Made frá 2017. Myndin lenti á Netflix á dögunum en hér segir kostulega sögu flugmannsins, eiturlyfjasmyglarans og CIA-uppljóstrarans Barrys Seal. Barry var flugmaður sem eftir að hafa flogið vélum flugfélagsins TWA frá 1966 til 1974 ákvað að söðla hressilega um og gerast stórtækur eiturlyfjasmyglari fyrir hinn stóra, kólumbíska Medellín-eiturlyfjahring þar sem hann tók m.a. við skipunum beint frá Pablo Escobar.


7. Dare Me

Áhorfendur víða um heim fengu að kynnast sjónvarpsþáttunum Dare Me þann 20. mars en þættirnir voru fyrst gefnir út á annarri veitu í kringum síðustu jól. Þættirnir segja frá samkeppnisandanum og samböndum sem tilheyra hinu átakanlega lífi mennstskælinga í smábæ í Bandaríkjunum. Umtal þáttanna er í það minnsta verðskuldað.


8. Freud

Mikil eftirvænting hefur legið í loftinu eftir nýju glæpaþáttunum Freud en þeir lentu á Netflix í vikunni. Fjalla þættirnir um engan annan en sálfræðinginn Sigmund Freud sem reynir fyrir sér að rannsaka glæpi að hætti Sherlock Holmes. 


9. The Letter For The King

Framtíð konungsríkisins er í höndum ungs raddarasveins sem fær það verkefni að færa konungnum leynileg skilaboð. Má þess geta að Jóhannes Haukur fer með lítið hlutverk í þáttunum. Áhorfendur geta sett sig í stellingar fyrir mikla fantasíu og tilheyrandi epík.


10. Friends

Gamanþættirnir Friends hafa lengi vel notið hreint svakalegra vinsælda í gegnum árin og poppa þeir stöðugt annað slagið á áhorfslista sem þennan. Milljónir manna horfa á þættina – aftur og aftur – á hverjum einasta degi og hefur eitthvað verið í loftinu á Íslandi undanfarna daga sem hefur komið þáttunum inn á topp 10 listann. Ætli þetta sé nostalgían að tala eða eru Friends raunverulega þættir sem eldast eins vel og hörðustu aðdáendur vilja meina?