Verður Witherspoon Peggy Lee?

Reese Witherspoon virðist ætla að halda áfram að túlka bandarískar dægurlagasöngkonur, líkt og hún gerði þegar hún lék June Carter í Walk the Line, og fékk Óskarinn fyrir.

Nú er í burðarliðnum ævisöguleg mynd um Peggy Lee, sem Nora Ephron skrifar. Þetta kemur fram í Variety kvikmyndablaðinu.

Þó að Witherspoon sé enn ekki búin að samþykkja að leika í myndinni, þá er hún einn af framleiðendum ásamt Marc Platt.

Witherspoon keypti réttinn til að kvikmynda sögu Lee og talaði svo við Platt, sem framleiddi einnig hinar vinsælu Legally Blond myndir þar sem Witherspoon lék aðalhluverkið. Ephron kom síðan til sögunnar enda er hún mikill aðdáandi tónlistar Peggy Lee.

Peggy Lee hóf feril sinn á fimmta áratug síðustu aldar í hljómsveit Benny Goodman og hljóðritaði í kjölfarið margar jassskotnar plötur og samdi einnig tónlist fyrir kvikmyndir. Hún kom fram í myndinni The Jazz Singer frá árinu 1953 og söngvamyndinni Pete Kelly´s Blues, en fyrir það hlutverk fékk hún tilnefningu til óskarsverðlauna fyrir aukahlutverk.

Witherspoon kom síðast fram í bíómynd árið 2008 í Four Christmases, en kemur aftur í bíó í How Do You Know í desember. Eprhon skrifaði síðast og leikstýrði Julie & Julia.