Glöggir kvikmyndaunnendur vita að leikstjórinn Matthew Vaughn gerði myndina Kick-Ass á síðasta ári en hún var gerð eftir samnefndri myndasögu úr smiðju Marks Millar. Framhald af Kick-Ass er nú þegar í vinnslu en ólíklegt er að Vaughn leikstýri henni.
Vaughn er hins vegar búinn að tryggja sér kvikmyndaréttinn á annari bók eftir Millar sem ber heitið Superior. Vaughn segir að þetta sé mjög sérkennileg blanda af Big og Superman, og fjallar þetta um dreng sem óskar þess heitt að vera ofurhetja og fær ósk sína uppfyllta.
„Ég hef alltaf notið þess að vinna með Mark, og nýjasta verkið hans, Superior, er mjög spennandi og hlakka ég mikið til að gera þá mynd,“ segir Vaughn í viðtali við WorstPreviews.com. Millar missti út úr sér að Leonardo DiCaprio hefði mikinn áhuga á verkefninu, en ekki er vitað um hvort það hafi breyst eða ekki.
Er einhver annar pínu svekktur yfir því að hann ætli ekki að gera Kick Ass: Balls to the Wall? Vonum að það sé gott í þessu. Leikstjórinn er á logandi uppleið í hæfileikum.