Formaður bandarískra foreldrasamtaka hefur skorað á Netflix að fjarlægja kvikmyndina 365 Days af streymisveitunni, en myndin er kynferðisleg pólsk mynd um konu sem er haldið fanginni í heilt ár, að því er virðist sem frillu.
„Ef Netflix fjarlægir ekki myndina og hættir að hagnast á efni sem kyndir undir mansal, nauðgun og mannrán, þá munum við fara með málið lengra,“ segir Timothy F. Winter formaður Parents Television Council í bréfi sem sent var til The Washington Times.
Myndin hefur verið gagnrýnd af mörgum, en er á sama tíma ein vinsælasta kvikmynd sumarsins á Netflix. Myndin er aðgengileg á Netflix á Íslandi.
365 Days er byggð á samnefndri bók, og fjallar um son mafíuforingja sem rænir pólskri konu, og segir að hún muni verða ástfangin af honum innan árs.
Duffy gagnrýnir
Velska söngkonan Duffy, sem sagði frá því fyrr á þessu ári að hún hefði verið fórnarlamb kynferðisglæps og mannráns, birti opið bréf stílað á forstjóra Netflix, Reed Hastings, og sagði að myndin „fegraði hinn hrottafengna heim mansals, mannráns og nauðgunar.“
„Þetta ætti ekki að vera eitthvað sem fólk skemmtir sér yfir,“ skrifaði söngkonan.
Í bréfi Winter nefnir hann önnur dæmi af Netflix um efni sem hefur verið gagnrýnt fyrir kynferðisleg umfjöllunarefni og óþægileg atriði, 13 Reasons Why og Big Mouth. Hann segir þó að 365 Days sé það allra versta sem hann hafi séð.
Netflix hefur enn ekki svarað áskoruninni.