Úr vergirni í þjóðhátíð

Franska leikkonan Charlotte Gainsbourg, sem nýlega lék aðalhlutverkið í Lars von Trier myndinni Nymphomaniac I og II, ( Sjúklega vergjörn kona I og II ) á í viðræðum um að verða hluti af leikarahópi stórmyndarinnar Independence Day 2, ( Þjóðhátíðardagur 2 ) sem væntanleg er frá 20th Century Fox.

gainsburgh

Á þessu stigi er ekkert vitað hvaða persónu Gainsbourg á að leika, en ef samningar nást þá mun hún vinna með þeim Jessie Usher, Liam Hemsworth og Jeff Goldblum m.a. ,en Goldblum mætir aftur til leiks úr fyrri myndinni í hlutverki David Levinson.

Will Smith mun ekki leika orrustuflugmanninn Stephen Hiller á ný, en hinsvegar er fastlega búist við því að Bill Pullman snúi aftur í hlutverki Thomas Whitmore, forseta Bandaríkjanna.

Áður hefur verið greint frá því að Jessie Usher muni leika son persónu Will Smith úr fyrri myndinni, þó svo að í þeirri mynd hafi aldrei verið talað um að Smith hefði átt son.

Kærasta hans, Jasmine Dubrow, sem Vivica A. Fox lék í myndinni, átti ungan son að nafni Dylan, en Hiller var ekki faðir hans. Mögulegt er þó að Usher muni leika Dylan.

Liam Hemsworth mun leika tengdason Thomas Whitmore.

Roland Emmerich snýr aftur sem leikstjóri.

Charlotte Gainsbourg sést næst á hvíta tjaldinu í myndinni Oppenheimer Strategies þar sem hún leikur á móti Richard Gere, Dan Stevens og Michael Sheen.