Uppáhaldsmyndir Axels árið 2011

Betra er seint en aldrei og fylgir maður fordæmi þeirra Þorsteins og Róberts með að skella inn sínum topplista yfir 2011. Ég verð að viðurkenna að ég er ansi ósáttur með hversu seint við íslendingar fáum stærstu verðlaunamyndirnar á borð við Hugo, The Descendants og The Artist, en maður vinnur einfaldlega með það sem er þá í boði.
Held mig við sömu reglu og þeir Róbert og Þorsteinn: ég má einungis setja inn myndirnar sem ég sá árið 2011. Þá get ég því miður ekki skellt inn hinni frábæru Moneyball á listann eða hinni stórkostlegu I Saw The Devil, en þær hefðu báðar trónað hátt á listanum hefði ég séð þær á síðasta ári. Ætla ekki að tefja frekar, hér eru uppáhalds kvikmyndirnar mínar frá síðasta ári:


10. Insidious
Gömul formúla og gamlar brellur en hér á ferð er samt sem áður mjög sterk hrollvekja sem kann að vekja vægilegan ugg og situr í manni vel eftir áhorf. Myndin er gerð fyrir mjög lítið fjármagn en skilar af sér hrylling og hugmyndum á borð við það besta í geiranum undanfarin ár- ógnvekjandi andrúmsloft og spennuþrungna uppbyggingin gera fyrstu tvo þriðjunga myndarinnar að upplifun sem skilur eftir sig helvíti góðar hugmyndir og ugg meðal áhorfendanna.
því miður dregur síðasti þriðjungur myndarinnar hana niður í áliti þar sem allt er keyrt í botn og andrúmsloftið og spennan þjást rækilega fyrir það. En að mestu leyti fylgir myndin hinni gullnu hrollvekjureglu; „minna er meira.“


9. Attack The Block
Bretar sanna sig enn og aftur með kröftugri og orkumikilli genre-mynd að þeir kunna sitt fag í það sem oft er talið vera dauðir flokkar. Að þessu sinni er vísindaskáldskapur genre-leikvöllurinn og sviðsettningin takmörkuð í eina íbúðarblokk og umhverfis hana. Myndinni tekst vel að þróa persónur sem flestir hafa óbeit á og myndin færir okkur fyrstu raunverulegu frammistöðu hins efnilega John Boyega í hlutverki Moses. Strákahópurinn iðar af lífi og allir koma náttúrulega saman í leik sínum- það kom reyndar mjög á óvart hversu djörf myndin er í dauðsföllum persónanna. Geimverurnar eru einnig skemmtilega ferskar í hönnun og brellurnar sem lífga þær við eru aðdáunarverðar.

Spennandi, bráðfyndin og mjög fersk hugmynd fyrir kvikmynd um geimveruinnrás. Hafið augun á leikstjóranum/handritshöfundnum Joe Cornish- hann á mikla möguleika innan kvikmyndaheimsins ef hann verður jafn trúr rótum sínum og innblæstri eins og í Attack The Block.


8. TrollHunter (Trolljegeren)
Þó þessi Norska ræma innihaldi ansi kjánaleg atriði er nóg af ást og unað fyrir landi og sögu efnisins til að sjarma mann upp úr skónum og færa okkur Skandinövum loksins fyrstu almennilegu Skandinavísku tröllamyndina. Framkvæmdin á sniðugum hugmyndum handritsins er aðdáunarverð- gamansemi persónanna heldur miklu lífi í myndinni innan um taugatrekkjandi tröllaveiðarnar og Otto Jespersen -sem er nokkurs konar Norska útgáfan af Jón Gnarr- kemur mjög á óvart í hlutverki sínu sem hinn þreytti en dugnaðarmikli tröllaveiðari.

Kvikmyndir eins og Trollhunter eru einstakar þar sem við fáum ekki aðeins að sjá verur úr þjóðsögum forfeðra okkar í fyrsta sinn á eigin slóðum, heldur fáum við einnig mjög efnilega og unaðsfulla kvikmynd sem skilur mikið eftir sig og tekst að koma á framfæri náttúruverndarskilaboðum betur en flestar aðrar fantasíumyndir.


7. The Adventures Of Tintin
Ekki einungis tekst þeim Spielberg, Jackson og hóp stórgóðra handritshöfunda/tinnanörda að færa okkur kvikmynd sem er efni sínu, aðdáendum og höfundi trú; heldur er þetta einnig ein skemmtilegasta ævintýramynd síðari ára þar sem tölvuunninn heimur Tinna er fylltur af augnkonfekti og stórbrotnum hasarsenum sem eru meðal þeirra bestu sem Speilberg hefur fært okkur á síðustu 20 árum.

Andy Serkis eignar sér hlutverk Kolbeins og Jamie Bell veitir Tinna aukna orku og ævintýraþorsta og bakgrunnurinn er í raun sín eigin persóna þar sem myndin er blásin mun meira lífi en Mo-Cap lestarslys Roberts Zemeckis. Myndin stefnir aldrei hærra en að verða gott og fljótkeyrt ævintýri, og henni tekst það svo sannarlega og meira til. Hvern langar ekki í annað ævintýri Belgíska blaðamannsins eftir svona stórgóða og virðingarfulla útfærslu?


6. Harry Potter & The Deathly Hallows: Part II
Ævintýrinu heimsþekkta og heitelskaða um galdrastrákinn Harry Potter lauk með miklum brag síðasta sumar og má þetta teljast sem einhvers konar endastöð fyrir þá sem urðu að miklum bókaormum þökk sé seríunni- mér leið alla vega þannig. Ef þú skellir saman báðum hlutum Deathly Hallows, hefurðu í höndunum stórbrotna epík sem bindur áhrifamikla lokahnykki á stórkostlegri seríu.

Ef einungis seinni hlutinn er tekinn til skoðunar höfum við bæði stórspennandi fantasíumynd og áhrifamikið karakterdrama. Harry Potter-myndanna verður sárt saknað meðal okkar sem ólust upp með seríunni á unglingsárunum og Deathly Hallows er einhver sterkasti lokakafli sem serían hefði getað öðlast. David Yates tókst að hnoða frábært efni í meistarastykki fantasíumynda þar sem engin högg eru spöruð.


5. X-Men: First Class
Ég ætla að byrja á að taka það fram að First Class var uppáhalds bíóupplifunin mín á þessu ári- ekki einungis var salurinn troðfullur af fólki af öllum aldri og þjóðflokkum, heldur var myndin einnig óvænt besta myndin í seríunni sem öllum í salnum tókst að tengja sig við og fá sem mest úr henni- viðbrögðin voru kostuleg. Maður gæti hafa heyrt nál falla til jarðar eftir peninga-trikkið.

First Class tekst að vinna gegn göllunum sem flestar prequel-myndir þjást af og tekst að skapa raunverulega spennu og þróa persónurnar þrátt fyrir að útkoman og örlög persónanna voru augljós löngu áður en maður sá myndina. Þeir Michael Fassbender og James McAvoy voru svakalegir saman og tókst að fá sterk viðbrögð úr áhorfendum með stórkostlegu frammistöðum sínum. Fassbender þá sérstaklega kom, sá, og sigraði í hluverki sínu sem Magneto. Besta X-Men myndin og ein fremsta spennumynd ársins.


4. The Man From Nowhere (Ajeossi)
Íslenskir kvikmyndagerðamenn hafa heilmikið að læra hvað varðar spennumyndagerð og hvernig á að skapa taugatrekkjandi atriði sem gætu fengið þá hörðustu til að svitna- það er kominn tími til að íslensk kvikmyndagerð líti til Suður-Kóreu fyrir hvernig skal gera góðan efnivið gullin fyrir mun minni pening en svipaðar myndir sem gerðar eru t.d. í Bandaríkjunum.

The Man From Nowhere er verulega vel heppnuð spennumynd með miklar hreðjar, vel þróaðar persónur og sterka dramatík. Hasaratriðin eru mjög vel uppsett, Bin Won eignar sér myndina í aðalhlutverki myndarinnar og í heildina séð skilur myndin mun meira eftir sig en flestar hefndarmyndir af þessu tagi. Kóreubúar sanna sig aftur og aftur sem vanmetna meistara í heimi kvikmyndagerðar- þá sérstaklega í spennumyndagerð.


3. Captain America
Draumakvikmynd fyrir fólk sem vill eitthvað í anda Spielbergs uppá sitt besta og þegar Hollywood var þekkt sem draumasmiðja. Persónan Steve Rogers er ein besta ofurhetja sem komist hefur á hvíta tjaldið og einstaklega vel túlkaður af Chris Evans. Þetta er kvikmynd sem ég hefði horft á stanslaust þegar ég var krakki og hef horft á hana margoft síðan hún kom út í sumar.

Algjört skylduáhorf fyrir þá sem vilja vita hvernig góðar og áhrifaríkar hasarsenur eiga að vera uppsettar. Full af litríkum persónum, byggist á vel strúktúruðu handriti og aukaleikararnir hitta gjörsamlega í mark. Ein besta myndasögumynd allra tíma.


2. Drive
Sígild spennumyndaformúla í anda mynda líkt Bullit, vafin í blóðuga 80s pakkningu og uppsett eins og stórflott arthouse stykki. Virkilega áhrifarík og ætti að fá marga til að finna fyrir þungum höggum í ákveðnum atriðum. Ryan Gosling er eitursvalur og skuggalega mennskur innan um rólegheitin í hlutverki sínu og margir aukaleikaranna koma einstaklega á óvart, þá sérstaklega Albert Brooks sem mjög ógnandi illmenni. Tónlistin var einnig ógleymanleg, enda er ekki við öðru að búast með snillinginn Clint Mansell í fararbroddi.
Að mínu mati inniheldur Drive einnig langbestu myndatöku ársins og tekst að byggja upp andrúmsloft náttúrulega eins og ekkert sé. Mjög eftirminnileg spennumynd sem sker sig rækilega úr spennumyndaflokknum.


1. Warrior
Ég spyr nú bara: fyrir utan að myndin tekur sinn tíma í að koma sér af stað, hvað er ekki frábært við Warrior? Alveg ótrúlegt hversu magnaðslega vel myndin kemur saman sem heild þó við höfum í raun séð þessa formúlu margfallt sinnum áður.
Gavin O’Connor hnoðar tilfinningar áhorfandans og finnur ný sjónarhorn á formúlunni til að veita okkur best heppnuðu íþróttamynd síðari ára. Einhverjar sterkustu frammistöður ársins, svakalega áhrifarík útfærsla og virkar ómótstæðilega áhrifarík og fersk þó hér sé ekkert nýtt efni til staðar. Þetta er kvikmyndagerð í sínu fínpússaðasta og hreinasta formi. Algjört meistarastykki.

___________________________________________________________________________________________________________

Og hananú! Ef ég ætti að velja Runner-up væri það klárlega Inbetweeners-myndin, en hún var klárlega fyndnasta mynd ársins. Það verður spennandi að sjá allar myndirnar sem vantar hingað á klakann og eru líklegast jafn spenntir yfir þessu kvikmyndaári sem inniheldur stórmyndir á borð við The Avengers, The Hobbit, The Dark Knight Rises og Prometheus svo eitthvað sé nefnt. Ég vill einnig þakka ykkur fyrir lesturinn á síðasta ári og fyrir hversu virk þið voruð í umræðum með fréttunum.

Er eitthvað hérna sem fór fram hjá fólki og eruð þið þá að plana að sjá þær?