Undarleg framtíðarmynd – Stikla og nýtt plakat

Kvikmyndaklúbburinn Svartir sunnudagar heldur áfram sýningum á Költ myndum sem þeir aðstandendur klúbbsins, þeir Hugleikur Dagsson, Sjón og Sigurjón Kjartansson velja. Nú er komið að framtíðarmyndinni Zardoz frá árinu 1974. Myndin er eftir John Boorman og er með sjálfum Sean Connery í aðalhlutverki.

„Þessi mynd er hluti af kynslóð ævintýrakenndra framtíðarmynda sem gerðar voru á áttunda áratugnum og má segja að hafist með frumraun George Lucas, THX 1138 árið 1970 og alið af sér myndir eins og Rollerball (1975), Logan’s Run (1976) og kannski endað á Blade Runner árið 1982. Í þessum sarpi er óhætt að segja að Zardoz sé sú sem lengst gangi í undarlegheitunum,“ segir í kynningu á myndinni.

Svartir sunnudagar láta sérhanna plakat fyrir allar myndir sem sýndar eru í klúbbnum. Það var Ómar Hauksson grafískur hönnuður sem hannaði plakatið fyrir Zardoz.
Sjáið plakatið hér fyrir neðan:

 

John Boorman var á þessum tíma, þegar Zardoz kom út,  nýbúinn að senda frá sér hina vinsælu mynd Deliverance og fékk “frítt spil” frá stúdíóinu til að gera mynd. Zardoz var hans „höfuðlausn“, þar sem hann skorar á hólm hugmyndir um Guð og líf eftir dauðann. Sagan gerist árið 2293 og heimurinn hefur farið í gegnum miklar breytingar.

Skoðið stikluna hér fyrir neðan:

Rusl eða snilld?

Myndin var mjög umdeild á sínum tíma. Hún fékk slæma aðsókn og þótti misheppnuð en gagnrýnendur skiptust í tvo hópa. Sumir slátruðu verkinu en aðrir sáu í henni mikið snilldarverk. Hún hefur svo í seinni tíð orðið vinsæl og skapað sér svokallaðan “cult status”. Í dag er talað um hana sem gleymda snilldarverkið og margir vilja kalla hana bestu mynd Johns Boorman.