Tvær Avengers myndir fá Dinklage

Heimildir kvikmyndasíðunnar Variety herma að Game of Thrones stjarnan Peter Dinklage, sem leikur Tyrian Lannister í þáttunum, eigi nú í viðræðum um að leika lykilhlutverk í Marvel myndinni Avengers: Infinity War. 

Marvel vildi ekki tjá sig um málið er eftir því var leitað.

peter-dinklage

Tökum á sjöundu þáttaröð Game of Thrones lauk nú nýverið, og þar sem næstu törn í tökum var frestað frá sumri og fram á næsta haust, þá gefur það Dinklage svigrúm til að leika í Avengers myndinni, en tökur hennar munu fara fram snemmsumars.

Áætlað er að taka upp næstu tvær Avengers hvora á eftir annarri,; Avengers: Infinity War og ónefnt framhald.  Dinklage ku eiga að leika í báðum myndunum.

Söguþráðurinn er aðeins á reiki, en vitað er að ofurhetjuteymið á í höggi við Marvel ofur-þrjótinn Thanos, sem Josh Brolin talar fyrir. Óvíst er hvaða hlutverk Dinklage á að leika.

Dinklage er einn af fáum nýjum leikurum í myndinni. Góðkunningjar eins og Robert Downey Jr. og Chris Evans snúa aftur sem Iron-Man og Captain America. 

Eftir að hafa leikstýrt síðustu tveimur Captain America myndum, þá snúa þeir bræður, Anthony og Joe Russo sér nú að Avengers myndunum, en það var Joss Whedon sem leikstýrði fyrstu tveimur Avengers myndunum.

Avengers: Infinity War er væntanleg í bíó 4. maí á næsta ári, 2018.

Auk Game of Thrones, þá hafa menn getað barið Dinklage augum í gamanmyndinni The Boss.