Leikarinn Bruce Boxleitner, sem fór með titilhlutverkið í fyrstu TRON-myndinni (og átti gestarullu í þeirri seinni), vill meina að sú þriðja sé á leiðinni. Reyndar hefur Disney-fyrirtækið sjálft staðfest að þeir séu byrjaðir að skipuleggja myndina en miklar efasemdir hafa sprottið upp hjá mörgum, og ástæðan er fyrst og fremst sú að TRON Legacy kom ekki út í miklum plús hjá stúdíóinu (dómar gagnrýnenda hafa líklegast ekki hjálpað eftirspurninni eftir þriðju myndinni heldur).
Disney tók gríðarlega áhættu þegar TRON Legacy var framleidd. Burtséð frá 170 milljón dala framleiðslukostnaðinum er talið að yfir $150 milljónir hafi farið einungis í auglýsingakostnað. Bætið síðan við hátt í 200 milljón dollara kostnaði sem fór í handrits- og hugmyndaþróun myndarinnar, sem stóð yfir í næstum því heilan áratug. Það er varla hægt að telja þau skipti þar sem Disney ætlaði að fara af stað með myndina áður en hætt var við.
Ágætis kostnaður þarna á ferð og ef menn leggja saman þessa summu og bera hana saman við 400+ milljónirnar sem TRON Legacy hefur hingað til skilað í kassann er áberandi að eitthvað vantar upp á. Það gæti auðvitað verið að gríðarleg eftirspurn hjálpi framleiðslunni á þriðju myndinni, en það er ólíklegt að Disney láti verða af því miðað við hverju seinasta áhætta skilaði.
Aðstandendur krossleggja annars fingur yfir tilvonandi velgengni teiknimyndaseríunnar, TRON Uprising. Spurning hvort eitthvað breytist ef henni gengur vel. Þið getið séð úr henni hérna:
Hvað segir þú? Myndirðu borga fyrir að sjá aðra TRON mynd?