Þetta er kannski ekki beint kvikmyndafrétt, en þegar tvöfaldur Óskarsverðlaunahafi á í hlut þá er ekki hægt annað en að segja aðeins frá því; Tom Hanks ætlar að þreyta frumraun sína á leiksviði á Broadway í New York.
Leikarinn ætlar að leika í leikritinu Lucky Guy eftir hina þrisvar sinnum Óskarstilnefndu Nora Ephron, sem féll frá nýlega. Hanks lék einmitt í rómantísku gamanmyndunum hennar vinsælu You´ve Got Mail árið 1998 og Sleepless in Seattle árið 1993.
Leikstjóri leikritins verður hinn tvöfaldy Tony vinningshafi George C. Wolfe.
Lucky Guy fjallar um hæðir og lægðir í starfi æsifréttablaðamannsins Mike McAlary á níunda áratug síðustu aldar. Skrif McAlary skiluðu honum Pulitzer verðlaununum árið 1998 þegar hann fjallaði um það þegar lögreglan gekk í skrokk á Abner Louima.
Þetta verður í fyrsta skipti sem Tom Hanks kemur fram á leiksviði síðan árið 1979, þegar hann lék með Riverside Shakespeare Company í New York.
Fyrir áhugasama, sem vilja berja Tom Hanks augum á sviði, þá hefjast forsýningar 1. mars nk. í Broadhurst leikhúsinu í New York, en frumsýning verður mánuði seinna, eða 1. apríl 2013.