The Thing verður endurgerð

Framleiðandinn Marc Abraham hefur sagt frá áætlun sinni varðandi væntanlega endurgerð myndarinnar The Thing, sem hefur hrætt líftóruna úr fólki frá árinu 1982. Eins og flestir vita væntanlega þá fjallar The Thing um ógnvænlega geimveru sem herjar á menn á Norðurpólnum, og leikur Kurt Russell aðalhlutverkið. Myndin hlaut gríðarlega góðar viðtökur og eldist ansi vel.

Í viðtali var Marc spurður hvernig hann ætlaði að toppa myndina, og þetta var svarið: ,,Þetta er meira forleikur heldur en framhaldsmynd, myndin mun gerast á svipuðum tíma. Atburðirnir sem gerðust á undan sögusviði upprunalegu myndarinnar munu koma fram.“

Þetta þýðir einfaldlega að hann ætlar að búa til sögu varðandi uppruna The Thing (skrímslisins/geimverunnar), og hvernig það komst til jarðarinnar. Við munum þá væntanlega fá að vita nákvæmlega hvað gerðist fyrir norska rannsóknarteymið sem var til staðar á pólnum áður en Kurt Russell og félagar hans mættu.

Mitt álit
Þetta hljómar nú meira eins og forleikur heldur en endurgerð, ég styð endurgerðir ef þær hafa eitthvað að bæta við upprunalegu myndina, þ.e. að leikstjórinn/framleiðendurnir haldi að þeir geti gert eitthvað betur. Mér sýnist það vera raunin í þessu tilviki og er því orðinn ansi spenntur.