The Crown snýr aftur – Sjáðu fyrsta sýnishorn

Netflix sjónvarpsþættirnir The Crown, sem fjalla um ævi Elísabetar Englandsdrottningar, voru einir umtöluðustu þættir síðasta árs, og uppskáru ýmis verðlaun, bæði aðalleikkonan Claire Foy, og þættirnir sjálfir.

Önnur þáttaröð er nú á leiðinni og fyrsta kitlan var opinberuð í dag.

Í kitlunni sjáum við Elísabetu þegar hún hefur verið við stjórnvölinn í tæp 10 ár, og á valdatímanum hafa þrír forsætisráðherrar komið og farið, og heimurinn er eins og alltaf, síbreytilegur og óreiðukenndur með tilheyrandi pólitískum hjaðningavígum.

Hneykslismál halda áfram að plaga konungsfjölskylduna og svo virðist sem eiginmaðurinn Filippus, sem Matt Smith leikur, sé ekki sá stuðningur sem drottningin virðist þurfa, og hún þarf því að taka málin í sínar eigin hendur rétt einu sinni.

Í þáttaröðinni munu koma fyrir persónur eins og John F. Kennedy Bandaríkjaforseti, sem Michael C. Hall leikur, og Jacqueline Kennedy, sem Jodi Balfour leikur. Einnig Tony Armstrong-Jones, sem Matthew Goode leikur, en hann er ljósmyndari og bóhem, sem verður nýr eiginmaður Margrétar prinsesssu, sem Vanessa Kirby leikur.

Þættirnir koma á Netflix 8. desember nk.

Sjáðu kitluna hér fyrir neðan: