Teiknimyndir um barnungan 50 Cent í bígerð?

Kvikmyndavefsíðan Deadline segir frá því að rapptónlistarmaðurinn og leikarinn ( og Íslandsvinurinn ) 50 Cent gæti orðið aðalsöguhetjan í nýrri teiknimyndaröð.

Vefsíðan segir að Fox sjónvarpsstöðin eigi ekki langt í land með að skrifa undir samning við 50 Cent og framleiðandann Randall Emmet ( End of Watch ) um að gera teiknimyndir sem byggðar verða á æsku 50 Cent.

Samkvæmt Deadline mun Fox líklega panta prufuþátt eða frekari kynningu á verkefninu frá rapparanum og framleiðandanum.

Þættirnir myndu fjalla um æsku rapparans og segja frá dreng sem vill engum illt, en hneygist til prakkarastrika og uppátækja, sem aftur verður til þess að hann lendir upp á kant við fjölskyldu sína og furðulega nágranna.

Ævi 50 Cent, sem heitir réttu nefni Curtis James Jackson, hefur þegar verið gerð skil í myndinni Get Rich Or Die Tryin’, en 50 Cent lék sjálfur í myndinni, sem var frumraun hans sem leikari.

Síðan þá hefur rapparinn leikið fleiri hlutverk, og lék til dæmis nýlega gestahlutverk í sjónvarpsþáttunum The Finder, auk þess að leika í kvikmyndum.

Í frétt Deadline segir að 50 Cent og Emmet séu einnig að vinna að drama verkefni sem gengur undir nafninu Power og fjallar um næturklúbbaeiganda í New York sem kemst í kast við lögin.