Eftir heilar fjórar vikur á toppnum í Bandaríkjunum er The Dark Knight núna komin í annað sæti skv. aðsóknartölum helgarinnar.
Tropic Thunder er núna komin í fyrsta sætið og þénaði hún $26 milljónir. Hins vegar er The Dark Knight hvergi að tapa sviðsljósinu þar sem að hún er núna komin í annað sæti yfir vinsælustu kvikmyndir allra tíma, og skákar hún þar með fyrstu Star Wars myndinni ($460 m.) með $475 milljónir á aðeins 5 vikum.
Eitthvað segir mér að Christopher Nolan sé búinn að skála ansi mörg rauðvínsglös með Warner mönnum í fögnuði.
En talandi um Star Wars, þá var spin-off teiknimyndin Star Wars: The Clone Wars einnig frumsýnd um helgina en þénaði rétt svo $15,5 milljónir, sem er ágætt miðað við framleiðslukostnað hennar en þetta þykir samt slappt miðað við þann gríðarlega aðdáaendahóp sem fylgir bæði Star Wars myndunum og Clone Wars þáttunum.
Nýjasta mynd Woody Allen, Vicky Cristina Barcelona, fékk takmarkaða dreifingu í Bandaríkjunum og var í 10.sæti yfir vinsælustu myndir helgarinnar með aðeins 3,7 milljónir dollara, en Græna Ljósið frumsýnir hana á Íslandi 31.október næstkomandi.

