Taken 2 sigraði Ísland líka

Eftir fréttir af velgengni Taken 2 á frumsýningarhelgi sinni vestur í Bandaríkjunum kemur ekki á óvart að myndin var vinsælasta myndin á Íslandi um helgina einnig, en myndin þénaði tæpar 7 milljónir króna í miðasölunni hér á landi.

Liam Neeson að miða á óþokkana sem rændu honum og konu hans.

Næst vinsælasta myndin á landinu, og fast á hæla Taken 2, er hin íslenska Djúpið eftir Baltasar Kormák, en hún var á toppnum í síðustu viku. Þriðja best sótta mynd helgarinnar var Looper, og fer niður um eitt sæti milli vikna. Fjórða sætið fellur í skaut nýrrar og litríkrar myndar, beinustu leið frá Afríku, Fuglaborgarinnar.

Í fimmta sæti á Íslandi um helgina lenti svo bannára- og gangsteramyndin grjótharða Lawless, og Brave hin skoska kom þar á eftir, og stendur í stað á milli vikna. Í sjöunda sæti er það svo Ávaxtakarfan sem heldur áfram að heilla unga og gamla, og Savages er í áttunda sæti, og fellur úr því þriðja.

Finding Nemo 3D er í níunda sæti og kosningagrínið The Campaign er í tíunda sæti.

Hér að neðan er svo listinn í heild sinni, upp í sæti 21.