Sýnir framfarir en alls ekki miklar

(ath. þessi umfjöllun gefur það upp hvort það eru góðu gaurarnir eða vondu gaurarnir sem vinna, og ef þú ert virkilega það tregur eða lyktandi af óskhyggju eins og svarið við því sé ekki lúðalega augljóst, þá myndi ég segja þér að lesa ekki lengra. Og kannski ráðleggja þér að fá þér lúr)

Clash of the Titans-endurgerðin var í mínum augum eins og tilraun til þess að búa til girnilega og safaríka máltíð úr topphráefnum. Síðan eftir smökkun kom í ljós allt annað bragð en búist var við, eins og vinnan hafi verið unnin af letilegri fljótfærni. Rangar aðferðir virtust hafa verið notaðar og ýmislegt vantaði í blönduna sem var að lokum sleppt vegna þess að enginn nennti að stökkva út í búð til að kippa því í lag, heldur í staðinn var rétturinn bara kláraður með hálfunninni uppskrift.

Svo kemur Wrath of the Titans, sem virðist einhverra hluta vegna vera tilraun til þess að skapa sama rétt með aðeins öðruvísi hráefnum hér og þar og kannski örlítið meira kryddi. Bragðið er aðeins þolanlegra fyrst en svo kemur sama óþægilega eftirbragðið sem segir að svo margt þurfti að laga við uppskriftina að best hefði átt að gera alveg nýja frá grunni – nema nú er það orðið um seinan. Í hnotskurn er framhaldsmyndin eins og óbeint afrit af misheppnaða forvera sínum nema hún er ögn einbeittari í frásögn og kannski pínulítið svalari.

Báðar myndirnar eru greinilega gerðar fyrir góðan pening, og auðvitað sést það. Útlitið er framúrskarandi fyrir utan einstök tilfelli þar sem tölvubrellur smella ekki eins vel við umhverfin og á öllum hinum stöðunum. Fyrri myndin gat ekki ákveðið hvort hún vildi vera epísk hefndarsaga eða tölvuleikur í bíóformi, þannig að hún varð eiginlega bara ólógísk blanda af hvoru tveggja. Hún var samt alltaf meira í laginu eins og tölvuleikur, þar sem atburðarásin spilast á rakettuhraða og er valhoppað yfir lykilsöguna til þess að hasarinn fái mesta fókusinn. Clash hafði lítið annað en metnaðarfullt útlit, töff sögusvið og vel unnið ofbeldi. Það vantaði allar tilfinningar, allan fókus, alvöru persónur, almennilega spennu og fjörið í heild sinni svo ekki sé minnst á slæmu samtölin og handritsholurnar. Það má samt ekki vera of harður á myndina vegna þess að framleiðendur rústuðu henni í eftirvinnslunni. Ýmislegt var klippt út á síðustu stundu, öðru var bætt inn og á endanum fékk leikstjórinn allt aðra mynd en hann ætlaði upphaflega að gera.

Ég hélt nú samt að aðstandendur hefðu lært af mistökunum sínum og lagt aukavinnu í framhaldsmyndina eftir þennan vonda afrakstur sem Clash var. Kemur síðan í ljós að Wrath of the Titans er eiginlega nákvæmlega eins og forveri sinn í strúktúr og hefur næstum því sömu veikleika. Áhersla á persónur finnst hvergi, handritið er stirt og illa unnið og sögunni (ef sögu skyldi kalla) er flýtt svo mikið að maður missir allan áhuga, sama hversu flott myndin er eða hvað hasarinn er fjölbreyttur.

Ég get auðveldlega meikað heiladauðar afþreyingar sem stökkva frá einu hasaratriði til þess næsta, jafnvel ef samtölin eru slæm og ekki síður ef útlitið er svona geðveikislega flott, en myndin verður þá að gefa mér hetju(r) til þess að halda með. Ég fann þær allavega ekki í þessari mynd. Sam Worthington heldur bara áfram að gera það sem hann gerði í síðustu mynd. Prófíllinn hans er svo grunnur og óáhugaverður að maður myndi sofna ef það væri ekki svona mikill hávaði, og það er alveg með ólíkindum hvað handritið er duglegt að hundsa alla aðra aukakaraktera, þegar þeir hefðu getað orðið svo miklu meira spennandi. Það eru leifar af ágætu samspili á milli Seifs og Hadesar (enn túlkaðir af óvenjulega miklum áhuga af Liam Neeson og Ralph Fiennes), en sagan hefur engan tíma til þess að staldra of lengi við hjá þeim. Þeirra senur voru samt þær eftirminnilegustu, bæði því þetta eru dásamlegir leikarar og líka vegna þess að þeirra samband tók skemmtilega þróun í seinni helmingnum.

Rosamund Pike og Toby Kebbell (sem er reyndar frekar fyndinn) fá að slást og hlaupa, en það skiptir samt litlu máli því áhorfandanum er drullusama um hvað skeður fyrir þau. Danny Huston lætur sóa sér aftur í hlutverki Poseidon (ég held að hann hafi átt 20 sekúndna skjátíma í síðustu mynd), Edgar Ramirez er kolrangur maður í illa skrifuðu hlutverki og Bill Nighy skemmtir sér – lítandi út eins og Dumbledore – vel í gestarullu sem gleymist um leið og hann hverfur úr myndinni. Leikararnir eru allir svo mikið skraut í þessari mynd og þeim ætti í rauninni að finnast það vera móðgandi. Mér var farið að líða illa fyrir hönd þeirra.

Leikarar, bæði reyndir og upprennandi, ættu samt að hafa það forritað á bakvið eyrað sitt að forðast allt sem leikstjórinn Jonathan Liebesman snertir. Hann reynir endalaust að skemmta manni með einföldum afþreyingarmyndum en þær verða yfirleitt bara þreytandi og leiðinlegar. Liebesman leggur mikla vinnu í útlit og sækist mest í það að gera bíómyndir um fólk sem hleypur á milli staða í aulalega langan tíma með reglulegum hasar. Stundum reynir hann að pína ofan í mann persónusköpun en það gengur aldrei hjá honum. Sennilega er Wrath skásta myndin hans til þessa, og tvímælalaust sú flottasta, en það segir allt um hans hæfileika þegar hann reyndi sitt besta og náði að skila af sér slakri mynd, sem er einungis rétt svo betri heldur en bíómynd sem lenti í eintómu rugli í framleiðslunni. Til hamingju, Jonathan! Mynd sem þú vandar þig við er aðeins betri en óskipulögð klippingaróreiða. Hlakka til að sjá þig riðlast á æskuminningum mínum með Ninja Turtles-endurræsingunni.

Mér finnst eitthvað svo skrítið hvernig svona svalur hasar getur verið svona óspennandi þegar manni er sama um söguna og hetjurnar. Ég fór á Wrath of the Titans til að skemmta mér, ekki til að horfa (aftur) á tölvuleik sem ég fékk ekki að spila. Það drepur líka stuðið hvað myndin er asnalega lík forvera sínum. Skrímslin eru öðruvísi, sviðsmyndirnar öðruvísi og hárið á Worthington er öðruvísi en rútínan er alveg sú sama; Fyrst kemur kynning, svo hefst þunnur leiðangur (með skepnuhasar inn á milli) þar sem persónur fara frá punkti A til B. Síðan kemur í ljós að hetjan okkar þarf á einhverjum vissum hlut að halda til að sigra stóra, ljóta endakallinn í lokin (sem reglulega er talað um í gegnum myndina). Fyrst var það Kraken, núna Kronos, og það er með ólíkindum hvað Perseus fer létt með að sigra þessi kvikindi.

Það vantar heldur ekki kjánahrollinn sum staðar (mikið svakalega var þetta lokaskot t.d. vandræðalegt) og það kemur stöku sinnum fyrir að sagan skrifar sig í algjörar holur (hvernig komst t.d. Perseus bara allt í einu út úr völundarhúsinu og af hverju sat Kronos bara aðgerðarlaus í fjallinu þangað til alveg í endann án þess að taka þátt í árásinni á undan? Getur einhver svarað mér þessu??) Ekki taka samt mark á mér ef þér fannst fyrri myndin vera skemmtileg, því það þýðir bara að þú eigir eftir að segja það sama um þessa líka. Framfarir eru auðvitað framfarir, en hrósið er tilgangslaust þegar betri myndin af þessum tveimur eigi ekki einu sinni skilið að vera kölluð epískt miðjumoð. Ef Clash var niðurgangur þá er Wrath hálsbólga og nefrennsli.


(4/10)