Það hlaut að koma að því en 13. desember næstkomandi fær „Black Christmas“ (1974) kóngameðferð hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Scream Factory. Blu-ray viðhafnarútgáfan hefur fengið fyrirtaks dóma og magnið af aukaefninu er gríðarlegt.
Leikstjórinn sálugi Bob Clark náði að afreka frekar merkilegan hlut. Hann á að baki margar misgóðar myndir á löngum ferli en hann státar af einni dáðustu jólamynd fyrr og síðar; „A Christmas Story“ (1983). Sú mynd lifir mjög góðu lífi og er skylduáhorf einu sinni á ári hjá mörgum kvikmyndaunnendum. En sannir hryllingsmyndafíklar sleppa ekki síður „Black Christmas“ þegar kemur að jólaáhorfi en myndin býr yfir sérlega ónotalegri stemningu og fær svo sannarlega hárin til að rísa. Með þessum tveimur náði Clark að búa til sígildar jólamyndir á sinn hvorum endanum. Geri aðrir betur.
Það er vart hægt að nefna skýrari áhrifavald að „slægjunum“ sem tröllriðu síðari hluta 8. áratugarins og fyrri hluta þess níunda en einmitt „Black Christmas“. Allar grunnreglurnar sem slægjur fylgdu eftir nánast eins og reglubók var að finna hér. Sagan segir að uppi hafi verið hugmynd um framhald og átti það að gerast á Hrekkjavöku. Eins fullkomin mynd og „Halloween“ (1978) er þá er ekki hægt að segja annað en hún hafi fengið eitt og annað að láni frá þessari klassík.
Það er mikið gleðiefni að myndin fái fyrsta flokks meðferð í háskerpu en um er að ræða algera myndræna yfirhalningu og skjámyndir sýna verulegan mun á fyrri útgáfum og þessari. Eins og áður sagði er magnið af aukaefni sérlega mikið en Scream Factory hefur sankað að sér öllu efni sem þegar hefur litið dagsins ljós á fyrri DVD útgáfum og bætt aðeins við.
Þessi er jafn ómissandi yfir hátíðarnar og „A Christmas Story“ og jafnvel „Christmas Vacation“ (1989). Jólin eru ekki bara hátíð ljóss og friðar.