Superman Returns vídeóritgerð svarar gagnrýninni

Superman Returns, frá árinu 2006, er yfirleitt ekki séð sem neitt annað en argasta vonbrigði, þrátt fyrir að vera með 76% á Rotten Tomatoes. Gagnrýnin er misjöfn en venjulega finnst fólki myndin bara vera óspennandi, þunn og umfram allt hrútleiðinleg, þótt undirritaður deili alls ekki sömu skoðun.

Ýmsir hafa komið myndinni til varnar, þar á meðal Quentin Tarantino. En það má deila um það hvort fólk myndi telja hans rök vera sannfærandi, sérstaklega miðað við þá gagnrýni sem síðasti topplistinn hans fékk. Þetta hafði samt hann að segja þegar hann opinberaði ást sína gagnvart myndinni:

„Ég er mikill Superman Returns-aðdáandi. Ég er að vinna í 20 blaðsíðna umfjöllun um þá mynd og ég er ekki einu sinni búinn með hana!“

Enn hefur sú ritgerð ekki litið dagsins ljós, en þann 9. janúar birtu þeir Matt Zoller Seitz og Ken Cancelose hálftímalanga vídeóritgerð sem útskýrir (í óhugnanlegum smáatriðum) hvers vegna myndin átti ekki skilið þennan skell sem hún fékk frá aðdáendum og áhorfendum víða um heiminn. Vídeóumfjöllunin er byggð á skriflegum dómi frá Seitz úr fréttablaðinu New York Press.

Smellið hér til að skoða þessa tilteknu umfjöllun. Hún er vægast sagt athyglisverð… Næstum því eins og Red Letter Media, bara með eðlilegri rödd og engum húmor.

Það virðist vera að langir vídeódómar séu partur af framtíðinni…