Við sögðum frá því fyrir stuttu að forstjóri Hasbro teldi Transformers 4 ekki ólíklega. Það ætti ekki að koma neinum á óvart, því myndirnar hafa malað gull í miðasölunni annað hvert ár síðan 2007 – sú síðasta yfir 1 milljarð Bandaríkjadala á heimsvísu. Nú berast hinsvegar fréttir að ekki bara sé fjórða myndin í undirbúningi, heldur sú fimmta líka, og þær verði teknar upp í einu. Þetta hefur oft tíðkast með framhöld af seríum þar sem gróðinn er talinn pottþéttur, Back to the Future II & III, Matrix Reloaded & Revolutions, og Pirates of the Caribbean 2 & 3 voru allar teknar upp með þessum hætti.
Nýlega bárust fréttir af því að Justin Lin og Universal ráðgerðu að taka upp Fast 6 & 7 með þessum sama hætti. Þá fylgdi með sá orðrómur að Jason Statham væri í samningaviðræðum um að ganga til liðs við myndirnar. Í þessari frétt fylgir sú saga einnig með, framleiðendurnir hafa áhuga á Jason Statham í aðalhlutverk myndanna, þar sem talið er víst að Shia LaBeuf snúi ekki aftur. Þá myndi hann kannski leika á móti núverandi kærustu sinni, Rosie Huntington Whitely, sem fór með stórt hlutverk í þriðju myndinni. Ekki mun þó hafa verið gert formlegt tilboð þess efnis við Statham, þannig að þetta eru enn sem komið er aðeins vangaveltur. En skemmtilegar vangaveltur allavega.
Annars er það að frétta af myndunum að Paramount telur að það muni spara peninga að taka þær upp báðar í einu, og eru því að stefna á þá nálgun. Handritshöfundurinn Ehren Kruger (Transformers 2&3, Scream 3) er sagður hafa hugmyndir að myndunum en verið er að leita að öðrum pennum til að þróa þær áfram. Þá er nú gert ráð fyrir að hægt verði að sveigja Michael Bay aftur að seríunni, en hann hafði sagt það mjög skýrt að eftir þessar þrjár myndir vildi hann snúa sér að öðrum verkefnum. En kannski breytist það ef launatilboðið verður nógu andskoti hátt.
Hefur einhver áhuga á fleiri Transformers myndum frá Bay? Væri Statham góð viðbót? Sjálfur viðurkenni ég að ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á þessari seríu. Hún bara gerir ekkert fyrir mig. En hver veit með öðrum leikstjóra?