Star Wars setur met í miðasölu!

Eftirvænting eftir myndinni Star Wars: The Force Awakens er greinilega gríðarleg hér á landi, og sést best á því að samkvæmt tilkynningu frá SAM bíóunum þá seldust 300 miðar sem boðnir voru í forsölu á sérstakar miðnætursýningar myndarinnar þann 16. desember, upp á einungis 7 mínútum, og eftir hálftíma höfðu 700 miðar selst.

Miðasalan hófst kl. 12 í dag, mánudag.

„Aldrei áður hefur þetta gerst á Íslandi. Bæði er það mjög sérstakt að byrja forsölu á kvikmynd þetta snemma og að það seljist 700 miðar á hálftíma er eitthvað sem hörðustu Star Wars aðdáendur áttu ekki von á,“ segir í tilkynningu SAMbíóanna.

Myndin kemur til sýninga í kvikmyndahúsum um allan heim helgina fyrir jól. Á Íslandi byrjar myndin í sýningu þann 17. Desember, degi á undan Bandaríkjunum.

„Star Wars:The Force Awakens verður klárlega jólamynd fjölskyldunnar í ár, hvar á jarðarkringlunni sem þú býrð,“ segir að lokum í tilkynningunni.

star wars