Og
verðlaunin fyrir skrýtnustu kvikmyndafrétt dagsins fær George Lucas. Hann hefur
nefnilega ákveðið að framleiða teiknimynd sem gerist í Star Wars-heiminum. Nei,
þetta er ekki framhald af hinni sorglega lélegu Star Wars: The Clone Wars, heldur er ætlunin að gera
grínteiknimynd. Ekki nóg með það, heldur eiga Seth Green og Matthew Senreich að
sjá um verkið, en þeir kauðar eru heilarnir á bakvið hina stórskrítnu og
æðislegu Robot Chicken-þætti. Í einum slíkum þætti gerðu þeir einmitt
stólpagrín að Star Wars, en í stað þess að vinna sér inn heift George Lucas
hefur hann greinilega hrifist svo mikið að hann vill gera opinbera Star
Wars-grínteiknimynd.
„Star
Wars-heimurinn er svo þéttur og ríkur; það er bilun að halda að það séu engin
venjuleg og hversdagsleg vandamál í svo vel skilgreindum heimi,“ sagði Green í
viðtali við The Hollywood Reporter. „Hvað gera þessar persónur þegar þær eru
ekki að berjast gegn illum heimsveldum?“
Nú hafa Seth MacFarlane og félagar í Family Guy þegar tekið Stjörnustríðið vel fyrir í
tveimur myndum, Family Guy: Blue Harvest og Family Guy: Something, Something, Something Dark Side (sem er án nokkurs vafa besti kvikmyndatitill síðari ára),
þannig að ég verð að leyfa mér að efast um að þetta geti orðið fyndnara en það,
jafnvel þó Robot Chicken-gaurarnir komi að verkinu…

