Star Wars 8 tekin á friðaðri eyju

Tökur á Star Wars Episode VIII í leikstjórn Rian Johnson munu hefjast nú í mánuðinum á eynni Skellig Michael undan suðurströnd Írlands.  Atriði úr Star Wars: The Force Awakens voru einnig tekin á eynni.

skellig

Eyjan er UNESCO friðuð og fylgst verður náið með tökum á eynni, samkvæmt frétt EW.  Umhverfisverndarhópurinn An Taisce hefur mótmælt tökunum harðlega, samkvæmt The Irish Times, en ferðamálayfirvöld eru himinlifandi með að fá Star Wars á eyna.

Á eynni er viðkvæmt fuglalíf auk klausturs sem búið var í frá því um 400 – 600 og fram á 12. öld. Talið er að klaustrið sé ein helsta ástæðan fyrir því að þessi tökustaður var valinn. Áætlað er að tökur muni standa í 2 – 4 daga.

Skellig Michael rís 218 metra úr sjó og er að hluta til gróin.

Star Wars: The Force Awakens verður frumsýnd 18. desember.

Ljósmynd: Jerzy Strzelecki