Star Wars 8 frestað

Star Wars aðdáendur þurfa að þola meiri bið eftir næstu mynd í seríunni, en í dag tilkynnti Disney að áttunda þætti ( Episode VIII ) þessarar geysivinsælu kvikmyndaseríu hafi verið frestað og verði nú ekki frumsýndur fyrr en 15. desember á næsta ári, 2017.

Upphaflega átti að frumsýna myndina 26. maí sama ár.

star-wars-rey

 

Auk þessarar frestunar þá tilkynnti fyrirtækið um að frumsýningu næstu Pirates of the Caibbean myndar, Pirates of the Caribbean: Dead Men Tell No Tales, verði flýtt til 26. maí 2017, en upphaflega dagsetningin var 7. júlí sama ár.

Star Wars: The Force Awakens hefur slegið hvert aðsóknarmetið á eftir öðru um heim allan, síðan myndin var frumsýnd 18. desember sl.

Myndin er sem stendur tekjuhæsta kvikmynd í sögu Bandaríkjanna, og þriðja tekjuhæsta mynd allra tíma sé litið til tekna af sýningum um allan heim. Tekjur af myndinni nema nú um 1,88 milljörðum Bandaríkjadala.

Áttundi þáttur myndarinnar er nú í undirbúningi og tökur hefjast í Lundúnum í næsta mánuði með nýjum leikstjóra, Rian Johnson, sem tekur við keflinu úr höndum J.J. Abrams.

Daisy Ridley, John Boyega og Oscar Isaac snúa aftur í áttundu myndinni, en þau voru kynnt fyrst til leiks í Star Wars: The Force Awakens.

Auk fyrrnefndra tveggja mynda þá er von á tveimur öðrum stórmyndum frá Disney þetta sama ár: Guardians of the Galaxy 2 sem frumsýnd verður 5. maí,  og Cars 3 sem kemur í bíó 16. júní.

Star Wars aðdáendur geta reyndar huggað sig við að hliðarmyndin Rogue One kemur í bíó 16. desember 2016.

Önnur hliðarmynd, mynd sem segir sögu Han Solo, er einnig í vinnslu en handrit hennar skrifa þeir feðgar Lawrence Kasdan og Jon Kasdan, og leikstjórar eru Phil Lord og Chris Miller. Sú mynd er væntanleg í bíó 25. maí, 2018.